135. löggjafarþing — 59. fundur,  5. feb. 2008.

flutningur á útgáfu starfsleyfa til landlæknis.

351. mál
[14:30]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málefnalega og góða umræðu. Mér heyrist að þeir þingmenn sem hér tóku til máls séu allir jákvæðir í garð málsins og fagna ég því. En það kemur kannski ekki á óvart, það er eðlilegt að komast að þeirri niðurstöðu þegar við hugsum málið að rökrétt sé að heilbrigðisráðuneytið sé fyrst og fremst í því sem ég tel að ráðuneyti eigi að vera, þ.e. í stefnumótun og aðhaldi. Annað, eins og leyfisveitingar og ýmislegt fleira, á heima annars staðar og fóru held ég allir þingmenn ágætlega yfir þær röksemdir og er þetta í rauninni löngu tímabært.

Hv. þm. Þuríður Backman vék líka að hlutverki annars aðila, þ.e. landlæknis, og í mínum huga á hann fyrst og fremst að vera ráðgefandi og í eftirlitshlutverki, hann á að vera með faglegt eftirlit. Ég tel að við þurfum að skerpa á því því að færa má rök fyrir því að landlæknisembættið sé hugsanlega að gera ýmislegt annað sem heyrir ekki undir þennan þátt sem er svo sannarlega afskaplega mikilvægur. Menn geta síðan rætt hvort ganga eigi enn lengra en í það minnsta held ég að það sé gott að fara í það svona í fyrstu atrennu.

Hér voru rædd mönnunarmál — eðli málsins samkvæmt er farið vítt um veg þegar menn ræða heilbrigðismál — og getum við að vísu, ef við berum okkur saman við ýmsa aðra, vel við unað hvað það varðar. Í dag eru áberandi fréttir á vefmiðlum um ástandið í Danmörku. Þar er ekki hægt að manna læknastöður í heilsugæslustöðvum víðs vegar um landið og er það orðið mjög stórt vandamál í því ágæta landi. Danir verða nú þegar að reiða sig á útflutning, ef þannig má að orði komast, á þeim sem eiga um sárt að binda þar til þess að geta skaffað þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda.

Það liggur fyrir að mönnunarmál eru eitt af framtíðarmálunum í íslenskri heilbrigðisþjónustu, þó ekki væri nema vegna þess að þjóðin er að eldast eins og aðrar þjóðir. Eins og við þekkjum erum við ein yngsta, ef ekki yngsta, þjóðin í OECD í dag. En þjóðin mun eldast eins og aðrar þjóðir, það liggur fyrir. Það er þumalputtaregla hjá OECD, og við berum okkur mikið eftir upplýsingum þaðan, að kostnaður við 65 ára og eldri er að meðaltali fjórum sinnum meiri en við þá sem yngri eru. Við horfum því bæði fram á nútíðar- og framtíðarverkefni hjá okkur hvað varðar þennan þátt mála.

Hv. þm. Ásta Möller spurði hvenær þess væri að vænta að fram komi frumvarp um lög um heilbrigðisstéttir. Eins og hv. þingmaður fór yfir og þekkir afskaplega vel er ekki um lítið mál að ræða. Það er ekki neinn hraði á þessu máli og alveg hárrétt, sem kom fram hjá hv. þingmanni, að mjög mikilvægt er að eiga gott samstarf við þær stéttir sem undir þennan lagabálk munu heyra. Við sjáum því ekki fram á að slíkt frumvarp komi fram á næstu mánuðum og ég á faktískt ekki von á því að það gerist nú á vorþinginu. Málið er stærra en svo og afskaplega mikilvægt. Eina leiðin til að koma því í höfn er sú að um það ríki þokkaleg sátt á milli heilbrigðisstétta.

Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir spurðist fyrir um það hvenær stóru málin kæmu. Ef ég hef skilið hv. þingmann rétt vildi hún endilega fá sem flest frumvörp frá þeim sem hér stendur inn í þingið og fagna ég því að mikil eftirvænting sé eftir slíku. En það er eins og hv. þingmaður veit, og við ræddum hér fyrir jólin, að það liggur hér fyrir að fram muni koma frumvarp um breytta skipan varðandi fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar og ýmislegt fleira mun koma — menn verða síðan að meta hvort þeir telji það stórt eða lítið en það liggur fyrir að frumvörp munu koma fram á vorþinginu sem hafa verið boðuð og eru nú þegar að koma fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og við þekkjum öll sem höfum tekið þátt í þeirri umræðu hér inni.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir jákvæð viðbrögð og málefnalega umræðu. Ég er sannfærður um að hæstv. heilbrigðisnefnd mun fara vel yfir málið og örugglega koma með gagnlegar ábendingar eða tillögur um breytingar ef svo ber undir.