135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[14:05]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka umræðuna um málið sem ég mælti fyrir í morgun um að útfæra í tekjuskattskerfinu möguleika til þess að einstaklingar megi draga kostnað við atvinnusókn frá tekjum áður en skattlagt er.

Margir tóku til máls í þessari umræðu og mér fannst hún yfir höfuð málefnaleg og hef ekki hugsað mér að fara í langa rökræðu en þakka aftur málefnalega og góða umræðu. Ég verð hins vegar að segja við vin minn hv. þm. Pétur Blöndal að auðvitað er mjög vont hlutskipti ef menn velja sér að vera yfirleitt á móti góðum málum, eins og hann orðaði það hér í morgun. Það er ekki eftirsóknarvert hlutskipti og við hljótum frekar að velja að fylgja eftir góðum málum ef við teljum að þau eigi við og reynum að koma þeim í höfn.

Ég skildi hv. þingmann þannig að menn þyrftu að gæta mikils aðhalds um fjármuni ríkisins. Ég hef svo sem orðið var við það áður í umræðunni að þegar kemur að skattkerfinu og einhverjum tilfærslum í því eru menn ekkert mjög hlynntir því. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur oft haft ýmsar athugasemdir við það.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að áður en við fórum í umræðu um málið, mælti hæstv. fjármálaráðherra fyrir frumvarpi um breytingar á skattalögum sem snúa að fyrirtækjum, m.a. kostnaði og verðmætareikningi varðandi skattálagningu að því er varðar fyrirtæki. Við erum alltaf að breyta skattalögum með tilliti til þess hvað uppi er á hverjum tíma í þjóðfélaginu. Eins og ég gat um í ræðu minni og margir tóku undir, þá er auðvitað uppi sú staða í íslensku þjóðfélagi að störfum mun fækka, sérstaklega í sjávarútvegsbyggðum, m.a. vegna niðurskurðar á þorskafla. Menn reyna að bregðast við því með ýmsum hætti. Ég benti á, og tóku ýmsir undir það, að þetta mál, réttilega útfært, getur vissulega verið innlegg umræðu um svokallaðar mótvægisaðgerðir.

Nokkrar umræður spunnust um — sem var til hliðar við meginefni málsins — að vissulega væru misjöfn skattlagningarákvæði á landinu. Það kom til vegna þess að menn ræddu um að íbúar landsins byggju ekki allir við sömu þjónustu. Það er langt frá því. Menn búa við mismunandi þjónustu. Í því sambandi var réttilega dregið inn í umræðuna að þann mismun mætti ef til vill bæta með því að hafa lægri skattprósentu á þeim svæðum þar sem þjónustan er ekki að fullu veitt og íbúarnir búa ekki við sömu kjör.

Einnig var bent á að margt þarf að skoða þegar metnir eru búsetuhættir. Mat fólks á því hvers vegna það vill búa þar sem það býr er misjafnt. Auðvitað komu þar inn sjónarmið eins og frelsi, sem ég kalla svo, við að búa á landsbyggðinni. Það er mikið frelsi, finnst mér, og talsvert eftirsóknarverðara en að búa hér í þéttbýlinu þótt ágætt sé að sofa í Mosfellsbæ alla vetur, eins og ég hef gert í mörg ár. Það er afar ánægjulegt og góðir íbúar sem þar eru (Gripið fram í.) þannig að ekki er neitt undan því að kvarta. Ég segi það ekki eingöngu þess vegna heldur einnig af því að mér líkar dreifbýli ákaflega vel og tel það hafa marga kosti.

Stefnumótun ríkisstjórna og þingsins á undanförnum árum, m.a. í byggðaáætlunum og ályktunum margra landshlutasamtaka, hefur mælt með því að skoða hvort eðlilegt væri að taka tillit til kostnaðar við atvinnusókn á milli byggðarlaga. Ég minnist ályktunar nokkurra landshlutasamtaka í þá veru og einnig gat hv. þm. Kristján Þór Júlíusson um það í máli sínu. Þau ákvæði hefðu m.a. verið inni í byggðastefnuáherslum ríkisstjórnarinnar, að stuðla að því að meta til hvaða kostnaðar væri hægt að taka tillit varðandi búsetuhagi og atvinnusókn. Það væri kostnaður sem væri viðurkenndur í áherslum Byggðastofnunar. Hv. þingmaður vitnaði beinlínis í þá stefnumótun og það er algjörlega rétt tilvitnun hjá honum.

Einnig var bent á að þótt við ræðum mikið um skattalög sé niðurstaðan af því sú hvað fólk hefur í rauntekjur og hvernig þær muni duga. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson benti á að við samþykktum að greiða niður flutningskostnað á ákveðnum svæðum landsins vegna þess að þar væru farnar miklar vegalengdir um mjög erfiða vegi, það er rétt. Við höfum því vissulega tekið tillit til ýmissa sjónarmiða sem ég hef m.a. fært fram sem rök í þessu máli. Ég heyri það á máli manna, m.a. hæstv. fjármálaráðherra, að þeim finnst að vissulega megi skoða málið gaumgæfilega, kosti þess og galla, og útfæra það með þeim hætti sem ég lýsti í morgun.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að rekja þá umræðu frekar. Ég legg einfaldlega áherslu á að hér er um afar þarft mál að ræða. Menn eiga að skoða það mjög gaumgæfilega og meta það til þeirra kosta sem ég tel að geti fylgt því að samþykkja það. Málið þarf einkum að skoða með tilliti til þess hvaða ástand við munum væntanlega upplifa á þessu ári varðandi atvinnu í ýmsum byggðum landsins. Fólk þarf jafnvel að búa við slæmt atvinnuástand næstu eitt eða tvö árin ef svo heldur fram sem horfir í þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að halda þorskaflanum við þau mörk að byggðir haldi ekki velli.

Það er ósk mín að orð hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um að við megum búast við því að byggðaröskun haldi áfram, gangi alls ekki eftir. Ég þykist alveg vita að hv. þingmaður óski þess líka þótt hann hafi orðað það með þessum hætti. Ég bendi einfaldlega á að það er þróun sem hefur átt sér stað lengi, líka í öðrum löndum. Til þess að vinna gegn slíkri þróun þarf markvissar aðgerðir í vissum þáttum þjóðfélagsins, samgöngum, menntun, atvinnusókn, möguleikum o.s.frv. og tryggja að þeir atvinnukostir sem til staðar eru fyrir hinar dreifðu byggðir séu ekki af þeim teknir. Þegar undirstöðu er kippt undan byggð er ákaflega erfitt að laga það.

Ég vænti þess að málið fái góða og vandaða umfjöllun í nefnd og komi aftur inn í þingið til afgreiðslu með þeim niðurstöðum og útfærslum sem hv. nefnd leggur til. Það gengur svo væntanlega til efnahags- og skattanefndar og ég tel að hér sé um mikið byggðamál að ræða. Kannski ætti að ræða það á fleiri sviðum nefndastarfs Alþingis en bara í þeirri nefnd.