135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

aukið öryggi við framkvæmdir hins opinbera.

303. mál
[18:53]
Hlusta

Flm. (Ármann Kr. Ólafsson) (S):

Hæstv. forseti. Hér mæli ég fyrir tillögu til þingsályktunar um aukið öryggi við framkvæmdir hins opinbera þar sem Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að endurskoða innkaupastefnu ríkisins með það að markmiði að:

a. tryggja sem best öryggi, heilsu og aðbúnað starfsfólks bjóðenda svo að tíðni slysa og atvinnutengdra kvilla verði lægst á Íslandi meðal OECD-landa,

b. koma í veg fyrir óhöpp eða slys við framkvæmdir á vegum hins opinbera.

Tillaga þessi er flutt í ljósi þess að fjöldamörg slys á vinnustöðum og í tengslum við framkvæmdir má rekja til þess að ekki er nægilega vel hugað að öryggismálum. Sem stærsti kaupandinn á vörum og þjónustu hérlendis getur hið opinbera haft mikið að segja í þessum efnum með því að sýna gott fordæmi og setja reglur um val á verktökum og birgjum með tilliti til frammistöðu þeirra í öryggismálum og heilsuvernd. Íslenskt atvinnulíf og samfélag hefur alla burði til þess að verða fyrsta samfélag heims til þess að setja sér núllslysastefnu í þessum efnum.

Það sem er sameiginlegt með þeim sem skara fram úr á alþjóðlegum vettvangi varðandi lága slysatíðni og atvinnutengda kvilla er afdráttarlaus stefna um að engin slys eða óhöpp séu réttlætanleg á vinnustað. Slík stefna byggist á þeirri hugmyndafræði að það sé grundvallarréttur einstaklinga að snúa ávallt heilir heim og stefnan snýr bæði að starfsfólki og öðrum á vinnustaðnum. Þá snýr markmiðið líka að almenningi sem oft verður að treysta á að framkvæmdaaðilar fylgi öryggi í hvívetna, t.d. við bygginga- og vegaframkvæmdir.

Með skipulögðu vinnuverndarstarfi þar sem áhættuþættir starfa eru greindir og mikil áhersla er lögð á að fyrirbyggja hættu næst verulegur árangur. Má nefna dæmi héðan frá Íslandi í þeim efnum þar sem Bechtel og Alcoa hafa náð á starfssvæði Fjarðaáls á Reyðarfirði þar sem fjarveruslysatíðnin er einungis 0,09 fjarveruslys á hverjar 200.000 vinnustundir, þ.e. 1 af hverjum 1.100 vinnandi einstaklingum. Hér er um að ræða 10 sinnum betri árangur en almennt gerist hérlendis ef tekið er mið af meðaltali allra vinnandi stétta á Íslandi. Miðað við vinnutíma Íslendinga og fjölda vinnuslysa sem leiða til fjarveru frá vinnu er meðalfjarveruslysatíðni allra stétta um 0,91 fjarveruslys á hverjar 200.000 vinnustundir, þ.e. 1 af hverjum 110 vinnandi einstaklingum. Ef tekið er mið af vinnuslysatíðni við mannvirkjagerð á Íslandi er um 1,47 fjarveruslys á hverjar 200.000 vinnustundir, þ.e. 1 af hverjum 68 vinnandi einstaklingum og með þingsályktunartillögunni fylgir graf sem sýnir þennan talnalega samanburð.

Samanburðurinn er áhugaverður í því ljósi að kostnaður verkkaupa Fjarðaálsverkefnisins er ekki meiri en ella þrátt fyrir þennan markverða árangur. Lykillinn að árangrinum liggur fyrst og fremst í hugmyndafræði og aðferðafræði við nálgun sérhvers verkefnis. Eitt af því sem Ríkiskaup gætu tekið sér til fyrirmyndar væri að byggja val sitt á verktökum/birgjum m.a. á árangri viðkomandi aðila í öryggis- og heilsuverndarmálum, þ.e. að bjóðendur þyrftu að leggja fram slysa- og atvinnusjúkdómatölfræði við sérhverja ákvörðun sem hér er lagt til að verði 25–50%.

Vakin skal sérstök athygli á því að hið opinbera er einn stærsti kaupandi þjónustu í mannvirkjagerð á Íslandi og því mjög fordæmisgefandi hvað varðar þær kröfur sem eru gerðar til þjónustuaðila og/eða birgja.

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekkert launungarmál að ýmislegt í þessum efnum hefur hreyft við manni. Ber þar kannski fyrst að nefna að það var sláandi að sjá þann mikla mun sem var á slysatíðni á milli tveggja stórra verktaka í tengslum við uppbyggingu á Austurlandi, annars vegar varðandi uppbyggingu álversins og hins vegar varðandi uppbyggingu virkjunarinnar. Því miður voru allt of mörg vinnuslys og allt of kostnaðarsöm sem áttu sér stað við uppbyggingu virkjunarinnar. Það er auðvitað þannig að í sjálfu sér skiptir það engu máli fyrir þann sem í slysinu lendir hverju sinni hve mikil slysatíðni hafi verið eitthvert tímabil þar á undan.

Það á að vera réttur okkar allra að geta snúið heil heim að vinnudegi loknum og það á að vera réttur okkar allra að geta treyst því að fyllsta öryggis sé alls staðar gætt við framkvæmdir. Ég neita því ekki að þegar maður hefur horft upp á ýmsar vegaframkvæmdir að undanförnu og ítrekað hefur verið bent á t.d. vegaframkvæmdir við Reykjanesbraut og einnig ýmsar vegaframkvæmdir, bæði á Vesturlandi og Norðurlandi, þá finnst manni alveg með hreinum ólíkindum hvernig merkingar eru og það er verið að bjóða hættunni heim í mörgum þessara framkvæmda.

Þá eru á vegum hins opinbera ýmsar aðrar framkvæmdir sem þarf að huga að öryggi við. Þegar skoðuð er tölfræði yfir vinnuslys og slysatíðni kemur í ljós að slysatíðni við byggingu og viðgerð mannvirkja er langhæst. Ég hafði alltaf ímyndað mér að fiskiðnaður og fiskvinnslustöðvar væru þar efst á blaði en það er alls ekki, þetta kom mér verulega á óvart.

Það kemur líka fram þegar vinnuslysaskrá Vinnueftirlitsins er skoðuð, en þar eru öll alvarleg slys metin samkvæmt líkamstjóni og öll slys sem leiða til meira en eins dags fjarvistar, þá kemur í ljós að árið 2005 eru þar skráðir 1.038 karlar og 443 konur og hlutfallið er þá 2,4, en samkvæmt Slysaskrá Íslands, sem hefur fleiri slys skráð, ekki bara þessi alvarlegu slys og slysin sem leiða til þess að fólk missi af vinnu daginn eftir, þá er hlutfallið 4,4 eða 5.245 karlar og 1.183 konur.

Þó að það geti verið hvimleitt að lenda í smáóhöppum þá er tilgangurinn með þessari þingsályktunartillögu fyrst og fremst að horfa til þessara alvarlegu vinnuslysa, vinnuslysa sem leiða til þess að aðilar látast eða lenda í alvarlegum hremmingum að slysi loknu, það er markmiðið með þessu fyrst og fremst. En um leið og tekið er á þeim málum þýðir það jafnframt að hugarfarið breytist varðandi slysavarnir og heilsu almennt og það virkar þá að sjálfsögðu niður allan skalann þannig að það má búast við að öðrum slysum muni jafnframt fækka.

Hæstv. forseti. Ég hef nú mælt fyrir þessari þingsályktunartillögu og vonast til þess að hún góða meðferð í nefndinni.