135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum.

[15:07]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Við hv. fyrirspyrjandi erum, held ég, sama sinnis hvað það varðar að við teljum ekki að eina lausnin á vanda Íslendinga, hver sem hann kann að vera á hverjum tíma, sé innganga í Evrópusambandið og upptaka evru sem gjaldmiðils.

Eins og ég skil þetta mál var hv. þm. Árni Páll Árnason að flytja ræðu á vettvangi þeirra í Noregi sem vilja ganga í Evrópusambandið en sá málstaður nýtur ekki ýkja mikils fylgis þar í landi eins og nú standa sakir ef marka má skoðanakannanir. Ég hygg að þeir sem fylgjast með þessum málum á annað borð í Noregi viti að skoðanir eru skiptar á Íslandi um þetta mál eins og í þeirra eigin landi. Ég held að þeir ættu þá alveg eins að lesa þær ræður sem ég hef flutt í Noregi um þessi mál eins og þá sem flutt var um síðustu helgi.