135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

kaupréttarsamningar.

[15:20]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að nota þetta tækifæri til að ræða við hæstv. viðskiptaráðherra um umræðuna sem verið hefur undanfarna daga um kaupréttarsamninga. Kaup stjórna fjármálafyrirtækja á hlutabréfum einstakra hluthafa á yfirverði hafa verið gagnrýnd harðlega og fram hefur komið að öðrum hluthöfum finnst þeir vera hlunnfarnir og hafa hugsað sér að láta á rétt sinn reyna í þessum efnum. Það er gert með því að vísa í 76. gr. hluthafalaga og er á þeim grunni dregið í efa að stjórnir fyrirtækja, og í þessu tilfelli fjármálafyrirtækja, hafi heimildir til að greiða einstaka hluthöfum fyrir hlutabréf sín á yfirverði.

Í þessu sambandi má líka benda á 79. gr. sömu laga, hlutafélagalaga, þar sem segir að starfskjarastefna skuli samþykkt af stjórn og síðan lögð fyrir hluthafafund. Spyrja má í ýmsum þessara tilfella hvort farið hafi verið að reglum, ef miðað er við ummæli ýmissa hluthafa í þessum efnum síðastliðna daga.

Þessir kaupréttarsamningar hafa verið umdeildir, enda eru þeir umdeilanlegir, að einstaka hluthafar séu teknir út með þessum hætti og samið við þá um hærri kjör og hærra verð fyrir hlutabréfin eins og gert hefur verið en þetta er eitt form launagreiðslna sem notað hefur verið í fjármálageiranum sérstaklega.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji, í ljósi þessarar umfjöllunar, að bregðast þurfi við þessu með einhverjum hætti. Hvort kaupréttarsamningar eins og þessir standist yfir höfuð hlutafélagalögin, hvort það hafi verið skoðað og hvort nota megi þetta sem launagreiðsluform eins og gert hefur verið.