135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[16:47]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé í sjálfu sér ekki flókið mál. Þingið þarf að vera reglulegar og betur upplýst um þau mál sem eru til umfjöllunar í sameiginlegu EES-nefndinni, á þeim vettvangi þar sem ákveðið er að taka mál upp í EES-samninginn. Það er auðvelt að haga málum þannig að þingið verði kaffært í skjölum og upplýsingum. En það á líka að vera tiltölulega einfalt að gera þetta með skilvirkum hætti þannig að meginatriði sem eru til umfjöllunar á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar séu kynnt fyrir þinginu fyrir utanríkismálanefnd. Þegar ég tala um utanríkismálanefnd er ég að hugsa um útvíkkaða utanríkismálanefnd með EFTA-nefndinni sem mundi síðan eftir atvikum upplýsa aðrar fastanefndir þingsins. Þannig yrði þingið reglulega upplýst um þau mál sem eru í deiglunni og geta ratað til okkar.

Varðandi lýðræðishallann þá er það mál sem við gengum að með bæði augun opin á sínum tíma, að við mundum ekki hafa sömu aðkomu að ákvarðanatöku og ef við værum fullir aðilar að Evrópusambandinu. En umræðan um lýðræðishallann hjá EFTA-ríkjunum í EES-samningnum fer ekki fram án þess að menn leiði hugann að lýðræðishallanum sem er í Evrópusambandinu sjálfu.

Hvað er höfnun Frakka og Hollendinga á stjórnarsáttmála Evrópusambandsins annað en skýr vísbending um að það sé kominn á verulegur lýðræðishalli, ójafnvægi á milli Evrópusambandsins annars vegar og þjóðanna hins vegar, hins almenna borgara í Evrópusambandsríkjunum? Það er stóralvarleg áminning um að Evrópusambandið hafi þróast allt of langt frá kjarna málsins, sem eru þegnarnir í Evrópusambandinu. Þetta sjáum við líka á þátttöku í kosningum (Forseti hringir.) og áhuga á starfsemi Evrópusambandsins í aðildarríkjunum.