135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

kjarasamningar og efnahagsmál.

[15:24]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ekkert óeðlilegt við það að spurst sé fyrir um gang kjarasamninga og aðkomu ríkisstjórnarinnar við lausn eða samkomulag í þeim efnum enda hefur það jafnan verið hlutverk ríkisstjórnar að landa slíkum samningum og gefa yfirlýsingar um aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins þegar aðilar vinnumarkaðarins takast á um kaup og kjör.

Ég gagnrýni því í sjálfu sér ekki spurningarnar og umræðuna um það sem hér hefur verið borið fram og flutt en það þarf ekki að koma neinum á óvart þótt hæstv. forsætisráðherra og aðrir talsmenn ríkisstjórnarinnar haldi spilunum að sér meðan kröfurnar eru óútkljáðar og myndin enn óskýr af því hvers sé krafist af hálfu ríkisvaldsins. Kjörin á vinnumarkaðnum haldast líka óhjákvæmilega í hendur við stöðu efnahagsmála eins og hér hefur verið rakið og öllum er ljóst að ýmsar blikur eru á lofti í fjármálum og efnahagsmálum sem stafa kannski af utanaðkomandi áhrifum, enda gerir stjórnarandstaðan, að mér skilst, kröfu til þess að ríkisstjórnin bregðist við á þeim vettvangi ef marka má málflutninginn hér á Alþingi fyrr og nú. Hér eru með öðrum orðum gerðar kröfur um að bæði sé haldið og sleppt.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa sýnt stillingu og ábyrgð í kröfum og samningaviðræðum og nú hillir undir niðurstöður og eru það vissulega fagnaðartíðindi, ekki síst ef stefnan virðist sú að bæta fyrst og fremst hag þeirra launastétta sem lægstar hafa tekjurnar. Sú stefna fellur í góðan jarðveg og ég heyri ekki betur en að fullur skilningur og stuðningur sé við þá (Forseti hringir.) lendingu. Það hlýtur að vera markmið okkar allra.