135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

kjarasamningar og efnahagsmál.

[15:26]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Það finna allir að kuldakast er í efnahagsmálum. Það er rétt sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði hér áðan að upp hrannast svört óveðursský sem skapa þrönga stöðu við gerð kjarasamninga. En á sama tíma hefur ekki farið mikið fyrir aðgerðum ríkisstjórnarinnar til þess að hafa jákvæð áhrif á gang mála. Það er mikilvægt í þessu sambandi að samningsaðilar nái saman um hófsama samninga sem framlag til þess að við náum heilu og höldnu út úr ólgusjó efnahagsmálanna. Ég fagna þeirri áherslu sem nú er unnið eftir í samningsgerðinni, að þeir beri mest úr býtum sem lökust kjörin hafa.

Ríkisstjórnin hefur sagt pass í samskiptum við aðila vinnumarkaðarins nú síðustu vikurnar. Það hefur komið fram mikil óánægja með slælega framgöngu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Ríkisstjórnin verður að koma að samráði við samningsaðila og vera tilbúin til að taka þátt í endanlegri lausn málsins. Það er mjög mikið mál og ég fagna út af fyrir sig yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra þar um hér áðan. Þar hlýtur ríkisstjórnin að líta til sömu forsendna og áherslna og samningsaðilarnir vinna að, þ.e. að bæta stöðu þeirra sem lökust kjörin hafa, láglaunafólks, barnafólks og annarra aðila.

Samningsaðilarnir vinna nú af fullum heilindum að gerð kjarasamninga og því ber að sjálfsögðu að fagna og lýsa ánægju með þá ábyrgð sem þeir sýna í samningsgerðinni. En aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálunum er hins vegar ekki til þess að auðvelda gerð kjarasamninga. Útlitið er ekki gott í þeim efnum og það eru fjölmargir sem kalla eftir aðgerðum. Það bólar ekkert á því að ríkisstjórnin vilji standa við stjórnarsáttmálann um að ná hér fram á ný efnahagslegum stöðugleika, það eru engir tilburðir í þá veru.

Ég vil að lokum taka undir með hæstv. forsætisráðherra að menn þurfi að tala varlega en vil í því sambandi beina því til forustumanna stjórnarflokkanna að reyna að hafa þá aga á sínu fólki. Hér fór fram umræða fyrr í dag þar sem hver stjórnarþingmaðurinn á eftir öðrum kom upp til þess að mæla fyrir því að kjör tiltekins hóps launafólks verði bætt. (Forseti hringir.) Þar er því einnig verk að vinna hjá forustumönnum stjórnarflokkanna að gæta þess að menn gæti hófs í umræðum.