135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[17:04]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjálfsforræði sveitarfélaganna er kjarni málsins. Það eru þau sem eiga á endanum að hafa mest um það að segja sem að þeim lýtur. Það hefur einmitt verið að þróast í aðrar áttir á undanförnum áratug, sérstaklega eftir að sameiningarátakið hófst fyrir 15 árum eða svo.

Full ástæða er til að vara við þeirri þróun. Hún getur leitt til þess að Samband íslenskra sveitarfélaga klofni í tvennt. Vaxandi þungi er í þeirri umræðu frá ýmsum sveitarstjórnarmönnum sem telja það skynsamlegra en að búa við það fyrirkomulag sem nú er. Fyrirkomulagið er þannig að kjósandinn velur sveitarstjórnarmenn, svo koma sveitarstjórnarmennirnir í hverri sveitarstjórn og velja sér einhvern fulltrúa á þing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þegar þangað er komið velja þeir sem þar eru einhverja menn í stjórn. Svo kemur stjórnin saman og hún velur menn í allt það sem skiptir mestu máli og lýtur að samskiptum við ríkið eða útdeilingu peninga svo sem jöfnunarsjóðinn. Þar liggja völdin. Þetta er samvinnuhreyfingin í fjórða veldi, menn eru komnir svo langt frá kjósandanum að það sést ekki til hans. Þetta er hið afleidda lýðræði sem er bæði afleitt og afleitt.