135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

íþróttakennsla í grunnskólum.

185. mál
[17:48]
Hlusta

Flm. (Ellert B. Schram) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs fyrst og fremst til að þakka hv. þingmönnum fyrir góðan og málefnalegan málatilbúnað og þátttöku í umræðum og fyrir góðar undirtektir við þessa tillögu og ég þarf svo sem ekki að hafa mörg orð umfram það sem ég sagði fyrr í umræðunni. Ég vildi hins vegar að gefnu tilefni taka fram að ég geri mér skýra grein fyrir því sem hér hefur komið til tals varðandi átraskanir, sá sjúkdómur er hættulegur og honum fylgir dauðans alvara en það er ekki viðfangsefni okkar í dag. Sú tillaga sem hér er flutt er fyrst og fremst til að fólk geti lært að temja sér hreyfingu og heilbrigða lífshætti. Það er gert af þeirri einföldu ástæðu að offita, ofþyngd er orðið mjög útbreitt vandamál. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá hefur komið fram í þessari umræðu að hjarta- og æðasjúkdómar sem stafa af offitu eru langalgengasta orsök dauðsfalla á Íslandi, 700 manns deyja á hverju ári af þeirra völdum, eða eins og hv. þm. Herdís Þórðardóttir sagði, það eru tveir einstaklingar á hverjum einasta sólarhring árið um kring.

Þegar maður horfir á þá staðreynd að fólk er að þyngjast og ekki síst unga fólkið, því miður, þá veltir maður því auðvitað fyrir sér hvernig hægt sé að bregðast við því. Þetta er ekki bara alvarlegt mál fyrir viðkomandi einstaklinga heldur hefur þetta, eins og komið hefur fram, í för með sér mikil útgjöld í heilbrigðiskerfinu fyrir utan þá fötlun sem verður til hjá því fólki sem ekki getur hreyft sig með eðlilegum hætti vegna ofþyngdar. Þá erum við að líta til þess, flutningsmenn þessarar tillögu, að eitt ráð af mörgum geti verið að auka íþrótta- og hreyfiskylduna hjá krökkum í grunnskóla. Ég er alveg meðvitaður um að það er ekki verið að beina öllu þessu unga fólki inn í íþróttafélögin sem slík. Við erum ekki að tala um íþróttir þó að þetta tengist náttúrlega því heiti. Við erum að tala um hreyfingu, að kenna unga fólkinu að hreyfa sig með alls kyns leikfimi og göngu og einhvers konar leikjum sem veldur áreynslu, svita og vellíðan sem jafnan stafar af því þegar fólk hreyfir sig og kemur líkamanum í gang.

Hv. þm. Herdís Þórðardóttir minnti á það áðan að fyrri kynslóðir hefðu hreyft sig í leikjum og að eldri kynslóðir hefðu ekki búið við sömu þægindi og við búum við í dag. Nú er þetta gerbreytt að því leyti að ungt fólk og gamalt getur farið um frá morgni til kvölds án þess að færa sig út úr stofunni og haft allt til alls engu að síður. Tæknivæðingin er orðin slík og nútímaþjóðfélag er þannig og samtíminn býður upp á það að fólk geti legið kyrrt og setið í sama stólnum og notið alls þess sem það lystir engu að síður, án þess að ég fari nánar út í þann lífsstíl.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson nefndi tilraunir sem er verið að gera uppi á Akranesi að því er varðar hreyfiskóla. Ég get ímyndað mér að það sé gert víðar og það er einmitt þetta sem við erum að tala um. Við erum ekki endilega að segja að það sé nauðsynlegt að hafa leikfimitíma einu sinni á dag. Það er hægt að hafa hreyfistundir í bland með ýmsu öðru sem í námskránni er getið um og það finnst mér vera praktískt úrlausnarefni hjá menntakerfinu, stjórnvöldum og eftir atvikum einstökum skólum. Hér er verið að leggja áherslu á þau skilaboð frá Alþingi, frá okkur sem erum meðvituð um þetta vandamál að það þurfi að bregðast við með einum eða öðrum hætti.

Ég fagna því sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir benti á að víða er búið að taka upp frístundakort sem greiðir fyrir því að unga fólkið geti farið í alls kyns hreyfingu, hvort sem það er í sund eða hjá íþróttafélögum, þetta er einn liðurinn í þessu viðfangsefni.

Frú forseti. Ég geri mér vonir um að eftir þessa umræðu fái málið fái góðar viðtökur í nefnd og að tillögunni verði fylgt eftir, annaðhvort með samþykkt hennar eða einhverri útfærslu á henni. Hér er um brýnt viðfangsefni og vandamál að ræða. Eins og ég hef sagt fyrr í þessari umræðu, þetta er dauðans alvara og við erum ekki að líta eingöngu á börnin sem slík, við erum líka að horfa á þjóðfélagið í heild sinni, heilbrigðiskerfið og þá þróun sem á sér stað í nútímalifnaðarháttum sem eru því miður ekki allir til góðs.