135. löggjafarþing — 65. fundur,  19. feb. 2008.

stofnun háskólaseturs á Akranesi.

344. mál
[19:19]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka umræðu um þær tvær tillögur sem ég hef flutt um stofnun háskólaseturs, annars vegar á Selfossi og hins vegar á Akranesi. Eins og fram hefur komið hafa þessar tillögur verið fluttar nú undanfarin þrjú ár og má vel vera að einstaka þætti í þeim hefði þurft að uppfæra eins og hér hefur komið fram. En megininntak málsins stendur óbreytt, þörfin fyrir það að komið sé á formlegu starfi á þessa lund.

Það hefur ýmislegt gerst. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson minntist á Menntaskólann í Borgarnesi, sem er gleðiefni, Fjölbrautaskólann sem var stofnaður á Snæfellsnesi, háskólasetur í Stykkishólmi þar sem stundaðar eru rannsóknir á háskólastigi og rannsóknarsetur í Snæfellsbæ. En Akranes hefur einhvern veginn setið á hakanum hvað það varðar að koma slíku starfi á formlega. Ýmislegt er í gangi eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson nefndi en það á eftir að setja það í þann formlega farveg sem þarf til þess að slíkt starf fái vaxið og dafnað á tilteknum forsendum og ekki hvað síst hvað varðar iðn- og tæknimenntun og þróunarstarf á þeim vettvangi.

Ég fagna góðum undirtektum og ábendingum hv. þm. Guðbjarts Hannessonar og vonast fastlega eftir því að málið fái farsæla og góða meðferð í menntamálanefnd. Þar verði þá leitað eftir frekari gögnum og upplýsingum um hvernig styrkja megi þetta mál þannig að það komi til afgreiðslu fyrir þinglok í vor. Það á við um báðar þingsályktunartillögurnar, um stofnun háskólaseturs á Selfossi og háskólaseturs á Akranesi, sem ég tel mjög brýnt mál fyrir þessi landsvæði, frú forseti.