135. löggjafarþing — 66. fundur,  20. feb. 2008.

atvinnumál kvenna í Suðurkjördæmi.

377. mál
[15:17]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór hér með tölur sem fólu í sér upplýsingar sem eru auðvitað dálítið sláandi um það hversu störfum hefur fækkað í fiskvinnslu á síðustu 15 árum. Þetta er alveg hárrétt. Störfum hefur á síðustu tíu árum fækkað t.d. samanlagt í fiskvinnslu og sjómennsku um 5.000. Þetta er það sem má segja að sé afleiðing framþróunar og aukinnar framleiðni í greinunum að verulegu leyti. Við vitum að á hverju ári fækkar störfum í þessum greinum um 4–5% vegna þess að verið er að taka í notkun nýja tækni. Það eru auðvitað jákvæðar hliðar á því, það eykur framleiðni eins og ég sagði og það eykur hagnað fyrirtækjanna en fækkar störfum. Þetta ásamt ýmsu öðru er það sem við er að glíma þegar menn velta fyrir sér ástæðum þess að fólki er að fækka á landsbyggðinni. Þeim störfum sem hafa haldið uppi atvinnulífi þar, bæði í hefðbundnum landbúnaði og í hefðbundinni fiskvinnslu og útgerð, fækkar alltaf vegna framvindu tækni og til viðbótar því gerist það síðan að það er mikill sogkraftur héðan af suðvesturhorninu. Það er einmitt þess vegna sem byggðaráðherrann hefur ekki verið að lýsa mikilli ánægju með ýmis áform um stórframkvæmdir á suðvesturhorninu þar sem engin þörf er fyrir þær.

Þetta vildi ég sagt hafa en ég þakka hv. þingmanni fyrir þann áhuga sem hún hefur fyrir velferð umbjóðenda sinna.