135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[11:25]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál er komið í þingið. Hér eru mjög margar mikilvægar breytingar sem við þingmenn Samfylkingarinnar höfðum kallað eftir á síðasta kjörtímabili því að við eins og fleiri höfum fengið mörg erindi frá fólki sem lenti illa í þessum viðmiðunartímabilum sem eru núna í lögunum. Auðvitað eru lög um fæðingar- og foreldraorlof mjög framsækin og það er horft til þeirra víða í heiminum. Þau hafa vakið mikla athygli, ekki einungis vegna þeirra réttarbóta sem foreldrar hafa fengið í gegnum þessi lög heldur einnig vegna þess hversu mikilvæg þau eru í jafnréttisbaráttunni fyrir réttindi kvenna og möguleika þeirra til framgangs í atvinnulífinu.

Hér er sem sagt verið að gera mjög margar mikilvægar breytingar á lögunum til bóta. Mig langar að nefna vegna orða hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að ég held að það sé full ástæða til þess að hv. félags- og tryggingamálanefnd skoði umfjöllun Norðurlandaráðs og vinnuna á vegum ráðsins sem snýr að landamærahindrunum. Paul Schlüter annaðist vinnu í þeim málefnum sem hafa komið upp og hafa hindrað Norðurlandabúa í að ná réttindum sínum og þar á meðal komu nokkrum sinnum, man ég meðan ég sat í Norðurlandaráði á síðasta kjörtímabili, atriði sem sneru að fæðingarorlofinu, svona svipuð dæmi og hv. þingmaður nefndi áðan í máli sínu. Ég held því að nefndin þurfi aðeins að skoða þann þátt. Ég er ekki viss um að það sé tekið algjörlega á því í þessu frumvarpi. En það væri þá hægt að skoða nánar í nefndinni.

Hér er líka verið að rétta mjög hlut foreldra sem eiga börn seinna á árinu og lentu illa í viðmiðunartímabilunum og var mismunað í rauninni miðað við börn sem fæddust nokkrum mánuðum fyrr eða síðar þannig að það er verulega til bóta að stytta viðmiðunartímabilið. Síðan er verið að taka rétt námsmannanna inn í lögin vegna fæðingarstyrksins og það er líka fullkomlega eðlileg breyting. Eftirlitið er verið að auka með framkvæmdinni, færa til Vinnumálastofnunar og auka samstarfið við skattyfirvöld. Það er einnig til bóta. Maður fékk kvartanir yfir því að kannski væri einhvers staðar pottur brotinn sem væri ekki fylgst nógu vel með. Ég held því að sú breyting sé mjög til hins betra og sömuleiðis rétturinn til forsjárlausra foreldra sem tekið er á í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi. Hér eru miklar réttarbætur á ferðinni og við munum skoða þetta vel í félagsmálanefndinni þegar málið kemur þangað. Ég vil bara þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma með þessar lagabreytingar á þessu þingi þannig að óréttlætið sem menn lentu í vegna vankanta á lögunum fái leiðréttingu. Ég þakka því bara hæstv. ráðherra fyrir þá vinnu sem hefur verið unnin hvað þetta varðar.