135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[13:31]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum mjög mikilvægar breytingar á almannatryggingalögunum sem eru í takt við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því fyrir jól, um bætt kjör lífeyrisþega. Þetta er fyrsta þingmálið sem kemur til kasta hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra eftir að lífeyristryggingar almannatrygginga voru færðar yfir í félagsmálaráðuneytið sem eftir það heitir félags- og tryggingamálaráðuneytið.

Ég vil nefna það hér, vegna þess að um er að ræða þá mikilvægu stofnun sem Tryggingastofnun er, að það er rétt, sem hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni, að oft hefðu starfsmenn sætt ósanngirni í gagnrýni úti í samfélaginu. Ég tek undir það því að oft hafa starfsmenn þar legið undir ámæli sem hefur verið ósanngjarnt. Í Tryggingastofnuninni eru frábærir starfsmenn sem vinna störf sín einstaklega vel og oft mjög flókin og erfið störf þannig að ég vil taka undir þau orð hæstv. ráðherra.

Nú er verið að skipta Tryggingastofnun upp, þ.e. þeim málaflokkum sem heyra undir stofnunina, og færa sjúkratryggingar yfir til heilbrigðisráðherra en aðra þætti til hæstv. félagsmálaráðherra. Mig langar í upphafi að beina þeirri spurningu til hæstv. félagsmálaráðherra hvort þeir tveir ráðherrar sem nú eru yfir málaflokkum almannatrygginga hafi hugað að því að þjónusta við lífeyrisþegana og alla þá sem þurfa á þjónustu almannatrygginga að halda, eða Tryggingastofnunar, hvort sú þjónusta verði ekki á einum stað. Það er geysilega mikilvægt að hún skiptist ekki upp og þeir sem þurfa á þjónustunni að halda fari á einn stað til að fá afgreiðslu. Þannig hafa menn beitt sér á Norðurlöndunum hvað þetta varðar þó að málaflokkar almannatrygginga, þ.e. sjúkratryggingar og lífeyristryggingar, hafi ekki heyrt undir sama ráðherrann. Ég tel því mjög mikilvægt að passað verði upp á að þjónustan verði á einum stað og spyr hæstv. ráðherra hvort sú vinna hafi farið í gang.

Almannatryggingarnar eru að uppruna frá 1936 og hafa síðan ekki verið mikið endurskoðaðar í heild. Lagabálkurinn sem var samþykktur 1971 hafði ekki mikið breyst þó að á lífeyristryggingum hefðu orðið nokkrar breytingar. Ég vil því fagna því að verið er að fara í heildarendurskoðun á almannatryggingunum hjá hæstv. ráðherra í félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Það er orðin löngu tímabær vinna og fyrirrennarar hæstv. ráðherra, sem hafa verið yfir málaflokknum, hafa ítrekað gefist upp við það verk í gegnum tíðina.

Það er mikilvægt að möskvarnir í öryggisneti velferðarkerfisins haldi og þarf þá að horfa á lagasetninguna í heild svo að netið gliðni ekki. Því miður hefur það gerst á undanförnum árum að menn hafa gert smáskammtabreytingar á lögunum og þá hafa myndast glufur í kerfinu sem bitna illa á lífeyrisþegum. Dæmin sem hæstv. ráðherra nefndi í máli sínu í morgun eru mjög góð dæmi um það hvernig þessar ítrekuðu breytingar án heildaryfirsýnar hafa lent illa á ákveðnum aðilum í ákveðnum aðstæðum.

Það er greinilegt að verkefnisstjórnin, sem tók að sér það verk að semja þetta lagafrumvarp og vinna við að einfalda almannatryggingarnar, hefur unnið hratt og vel. Hér er hið besta frumvarp komið í hendur okkar alþingismanna þar sem gerðar eru tillögur til breytinga í anda þeirrar yfirlýsingar sem kom frá ríkisstjórninni fyrir jólin. Þetta eru, eins og kom þar fram, fyrstu aðgerðir í þágu lífeyrisþeganna. Einnig er verið að taka á því hér að reyna að minnka ofgreiðslur í kerfinu og síðan endurkröfuna sem hefur bitnað illa á lífeyrisþegum. Í þágu þess hefur verið sett 90 þús. kr. frítekjumark á fjármagnstekjur. Mér fannst athyglisvert að hæstv. ráðherra sagði að helmingurinn af allri ofgreiðslu væri vegna fjármagnstekna. Það er athyglisvert en kemur mér reyndar ekki á óvart því að yfirleitt hafa þau mál sem hafa borist mér flest verið vegna fjármagnstekna sem hafa gert það að verkum að fólk lendir í ofgreiðslum og síðan endurkröfum.

Í þágu þess að einfalda kerfið og gera það hagkvæmara hefur breyttu verklagi verið komið á. Eftir því sem mér skilst er aukið samstarf við skattyfirvöld til að fá upplýsingar fyrr til Tryggingastofnunar til að koma í veg fyrir ofgreiðslur í kerfinu.

Fyrsta málið sem nefnt er í frumvarpinu um helstu breytingar er að skerðing tryggingabóta vegna tekna maka verður afnumin frá og með 1. apríl 2008 og það er stórmál. Það hefur verið mikið baráttumál lífeyrisþega, bæði aldraðra og öryrkja, lengi. Á síðasta kjörtímabili var stigið ákveðið skref í þá átt að afnema eða minnka tekjutenginguna en ekki var gengið alla leið heldur minnkað í 25,75% sem nú eru afnumin. Ég vil einnig fagna því að í frumvarpinu er tekið á því í bráðabirgðaákvæði að þeir sem lenda í þeirri stöðu að þurfa t.d. að greiða hærra gjald fyrir hjúkrunarheimili lendi ekki í þeim auknu gjaldtökum. Ekki var hugað að því á síðasta kjörtímabili þegar þessi tekjutenging var minnkuð og þá fengu nokkrir lífeyrisþegar hærri rukkanir vegna hjúkrunarheimila. Tryggingastofnun brást við því og fór ekki í þá innheimtu, sem betur fer því að hún var ósanngjörn. Menn höfðu ekki verið upplýstir um að þessar breytingar væru á ferðinni sem gætu bitnað á þeim sem eiga maka á hjúkrunarheimili. Hér er sem sagt tekið á því í bráðabirgðaákvæði að lífeyrisþegi getur valið um hvora regluna hann nýtir. Mér skilst að fyrirkomulagið sé á þann veg að tölvukerfi Tryggingastofnunar ríkisins muni velja hagkvæmari leiðina fyrir hvern lífeyrisþega þannig að hann lendi ekki í þessum auknu innheimtum. Þetta bráðabirgðaákvæði gildir til næstu tveggja ára, sem er mikilvægt. Ég geri fastlega ráð fyrir því að eftir þau tvö ár verði búið að breyta þessu kerfi. Að við verðum búin að afnema það niðurlægjandi vasapeningakerfi að lífeyrisþegar missi fjárráðin við að fara inn á hjúkrunarheimili. Að því verði breytt í svipaða veru og nú er viðhaft gagnvart fötluðum á sambýlum eða í svipaða veru og fyrirkomulagið er á Norðurlöndunum.

Þá verður búið að afnema hið úrelta, gamla og niðurlægjandi vasapeningakerfi eftir tvö ár — að því hlýtur að verða stefnt enda hefur það verið stefna Samfylkingarinnar lengi að breyta því. Það er sem sagt verið að grípa til sérstakra aðgerða til að draga úr of- og vangreiðslum tryggingabóta með þessu sérstaka frítekjumarki á fjármagnstekjur. Það er verið að hækka vasapeningana á stofnunum um 30% en ég vil minna á það að síðast þegar almannatryggingalögunum var breytt urðu vasapeningarnir út undan og þeir hækkuðu ekkert. Fólkið sem var á vasapeningum á stofnunum fékk því engar kjarabætur á síðasta kjörtímabili. Nú er sem sagt verið að bregðast hressilega við og hækka vasapeninga um 30% frá og með 1. apríl nk. og frítekjumarkið er afnumið. Ég lít auðvitað svo á að þetta verði tímabundið ástand vegna þessara breytinga sem ég tel að við verðum að fara í, að afnema þetta kerfi.

Skerðingarhlutfallið hjá ellilífeyrisþegunum verður lækkað úr 30% í 25% frá sama tíma og einnig er verið að setja inn frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára, verið að hækka það í 100 þús. kr. úr 25 þús. kr. sem það var áður. Þarna er verið að koma til móts við þennan hóp, 67–70 ára, en á vorþinginu, eins og menn eflaust muna, var almannatryggingalögunum breytt í þá veru að 70 ára og eldri gátu haft hvaða atvinnutekjur sem var og þær skertu ekki bætur þeirra. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra vegna þessa: Hvernig standa málin gagnvart lífeyrissjóðstekjunum? Stendur til að setja einhver frítekjumörk gagnvart þeim? Það væri fróðlegt að fá að heyra það því að fjöldi manns hefur safnað sér réttindum í lífeyrissjóðum og þær tekjur skerða náttúrlega almannatryggingabæturnar. Það væri fróðlegt að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvort það hefur eitthvað verið rætt í félagsmálaráðuneytinu.

Gert er ráð fyrir því að þær breytingar sem snúa að öryrkjunum muni fara til hv. félagsmálanefndar á meðan málið er í vinnslu og þar er verið að bíða eftir niðurstöðum nefndar forsætisráðherra. Ég, virðulegi forseti, spyr hæstv. ráðherra: Hvenær áætlar sú nefnd að skila frá sér niðurstöðum? Það er mjög mikilvægt að félagsmálanefnd Alþingis afgreiði þetta mál vel en líka nokkuð fljótt vegna gildistökuákvæðanna og því er áríðandi að fá upplýsingar um það hvenær þær breytingar sem snúa að öryrkjunum eru væntanlegar frá nefnd forsætisráðherra. Ég vil taka undir mikilvægi starfsendurhæfingar, sem nefnd forsætisráðherra hefur verið að vinna að, og fleiri, m.a. Samtök atvinnulífsins. Það þarf að vera virk starfsendurhæfing þar sem gripið er inn í þegar fólk er að missa heilsuna þannig að það lendi ekki strax á örorku. Það getur verið mjög erfitt og þess vegna er þessi umræða öll um aukna starfsendurhæfingu, og það að horfa til starfsgetu einstaklingsins en ekki til þess hvað hann getur ekki — nálgun sem er mjög mikilvæg og einnig er það mikilvægt að menn vinni að því að koma í veg fyrir að fólk missi starfsgetuna.

Ég sé að tími minn flýgur áfram. Það eru ýmis mál sem ég hefði gjarnan viljað ræða en ráðherra hafði farið mjög rækilega yfir hlutina. Það er verið að afnema skerðingu vegna séreignasparnaðarins 1. janúar 2009. Ég hef verið iðin við að hvetja fólk til að leysa ekki út sinn séreignasparnað fyrr en þá ef það mögulega getur beðið með það. Hæstv. ráðherra nefndi sláandi dæmi um það hvernig helmingurinn af þessum séreignasparnaði er nánast tekinn til baka með skerðingunum. Það er nánast klár eignaupptaka, þessar skerðingar á þeim sparnaði.

Ég ætla einnig að nefna nokkur atriði sem snúa að komandi kjarasamningum og samkomulagi ríkisstjórnarinnar við launþegahreyfinguna sem var kynnt í síðustu viku. Þar koma ýmsar kjarabætur til lífeyrisþega. Almannatryggingabæturnar munu t.d. hækka annaðhvort í takt við lánavísitölu eða neysluvísitölu eftir því hvað kemur sér betur fyrir þá, persónuaslátturinn verður hækkaður o.s.frv. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu í bili en ef ég tel ástæðu til bið ég um orðið aftur. Við skulum sjá hvað setur í þeim efnum.