135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[14:02]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur mælt fyrir. Áður var málaflokkurinn undir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og er frumvarpið lagt fram í ljósi breytinga á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins. Hér um að ræða frumvarp um málefni aldraðra sem er að mörgu leyti mjög jákvætt. Hér er verið að bæta að mörgu leyti stöðu aldraðra samkvæmt ákveðnu samkomulagi sem var gert í desember síðastliðnum við lokaafgreiðslu fjárlaga. Eins og ég sagði áðan þá er þetta út frá yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. desember 2007 og margt gott má í þessu máli finna.

Hins vegar verð ég að viðurkenna að mér finnst, þegar maður heyrir í forsvarsmönnum aldraðra, að þeim finnist að hér sé helst til of skammt gengið í kjarabótum handa öldruðum sérstaklega kannski í ljósi þess að málflutningur allra stjórnmálaflokka í aðdraganda síðustu kosninga var á þann veg að það ætti að stefna að því að stórbæta kjör aldraðra og öryrkja í ljósi þess að staða ríkissjóðs væri svo sterk sem raun ber vitni.

Ég er með fyrirspurn í þinginu til hæstv. fjármálaráðherra um það hvort hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir því að skattur af lífeyristekjum aldraðra verði 10% rétt eins og sumir stjórnmálaflokkar lofuðu í aðdraganda síðustu kosninga. Sú fyrirspurn liggur inni hvort fjármálaráðherra sem fer með skattamálefni sé reiðubúinn til breytinga á því sviði að skattur af lífeyristekjum verði 10%. Rök manna fyrir því að skattur af lífeyristekjum eigi einungis að vera 10% eru meðal annars þau að hér er um að ræða uppsafnað fjármagn sem fólk hefur lagt fyrir gegnum áratugina og er að verulegu leyti fjármagnstekjur.

Hins vegar er það þannig að þeir aðilar sem eiga þó nokkuð mikið af peningum og eru tekjuháir og leggja umfram það sem þeir eiga að leggja í lífeyrissjóði og leggja það inn á venjulega bankabók, þeir greiða einungis 10% fjármagnstekjuskatt. Þeir sem vel standa og þurfa að koma sínu sparifé í lóg greiða einungis 10% skatt þegar þeir leggja það inn á bankabókina en þeir sem strita alla ævi við að greiða inn á sinn lífeyrissjóð sem er skylda þurfa að borga yfir 30% skatt þegar þeir taka þann lífeyrissparnað út.

Því vil ég spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra sem fer núna með málefni aldraðra hvort hún hyggist beita sér fyrir því að skattlagning lífeyristekna aldraðra verði endurskoðuð á þessu kjörtímabili rétt eins og Samfylkingin boðaði fyrir síðustu kosningar. Þetta var mjög mikið til umræðu þá og mikilvægt er að heyra hvort Samfylkingin hyggist í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn beita sér í þessum efnum og hvort að Samfylkingin hafi við myndun þessarar ríkisstjórnar lagt mikla áherslu á að lífeyrisþegar greiði 10% skatt af sínum lífeyristekjum.

Ég á eftir að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hér síðar út í það hver hans afstaða sé í þessu máli. En mér finnst af því við höfum rætt það að hér er eitt skref stigið í þá átt að bæta kjör aldraðra þá hlýtur maður að velta því fyrir sér hver næstu skref eigi að vera í þeim efnum og því spyr ég þessara spurningar í þessu samhengi því það er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hvaða næstu skref ríkisstjórnin ætlar að stíga í þessum efnum.

Ég vil benda á annað, hæstv. forseti, sem við bentum á þegar svokölluð 70 ára regla var samþykkt á síðasta ári í þinginu, að það eigi að skipta öldruðum í tvo hópa, annars vegar 67 ára til sjötugs og síðan 70 ára og eldri. Þeir sem eru 70 ára og eldri geta aflað tekna án þess að vera skertir á meðan að einstaklingar sem eru 67 upp að 70 ára aldri eru skertir séu þeir með meira en 100 þús. kr. í laun á mánuði.

Ég held að það sé nú algengara að fólk hætti að vinna um 67 ára aldur og fari á lífeyristekjur þá og ég er ekkert búinn að sjá það að það fólk sé endilega að fara að vinna aftur um sjötugt. Mér er það til efs að ríkið sé að græða á því að skipta eldri borgurum með þessum hætti í tvo hópa því í raun og veru er það hvati fyrir fólk sem er 67–70 ára gamalt að stunda atvinnu því þannig þenst ríkiskassinn út. Það fólk greiðir sína skatta og skyldur til samfélagsins. Mér er því alveg fyrirmunað að sjá það, hæstv. forseti, hvernig menn fá það út að það geti borgað sig fyrir ríkissjóð að skipta öldruðum í tvo hópa, annars vegar 67–70 ára og 70 ára og eldri. Mig grunar, hæstv. forseti, að hér hafi verið um að ræða sérstakt áherslumál sjálfstæðismanna í þessum efnum og ég held að Samfylkingin sé ekkert endilega og hafi ekkert verið áfjáð í að skipta eldri borgurum í tvo hópa með þessum hætti. En ég spyr hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra að því hvort hún hyggist beita sér fyrir endurskoðun á þessu þannig að aldraðir verði á ný einn hópur, þ.e. 67 ára og eldri þannig að við 67 ára aldurinn geti fólk haldið áfram sinni vinnu án þess að lífeyrisgreiðslur skerðist.

Ég fagna einu hér, hæstv. forseti, sem kveður á um í 7. gr. frumvarpsins og ég held að sé til mikilla bóta, þar sem er sagt að hægt sé að óska eftir því hjá Tryggingastofnun ríkisins að gerður verði samanburður á útreikningi elli- og örorkulífeyris og tekjutryggingar fyrir og eftir gildistöku þessara laga. Ef samanburðurinn leiðir til hærri bóta samkvæmt eldri lögum skal stofnunin greiða hærri bæturnar á því tímabili. Hér er um ívilnandi ákvæði að ræða fyrir þá sem eiga að njóta greiðslna úr þessum sjóðum og ég fagna því sérstaklega að menn skuli taka á þessu þar sem lífeyrisþeginn nýtur vafans. Ég fagna því sérstaklega.

Annars er hér um að ræða frumvarp sem byggir á því sem ríkisstjórnin kynnti í desember síðastliðnum og það bíður okkar mikil vinna í félags- og tryggingamálanefnd þingsins að fara yfir þetta, heyra hvað aldraðir og öryrkjar hafa að segja um þær breytingar sem hér eru lagðar til. Það á eftir að senda þetta frumvarp til umsagnar og við eigum eftir að heyra í helstu hagsmunaaðilum sem málið varðar. Ég ætla ekkert að draga úr því að hér er um að ræða frumvarp sem mun heilt yfir bæta kjör lífeyrisþega. Það er það jákvæða í þessu máli. Hins vegar eru áhöld um það hvort við göngum nógu langt í þessum efnum. Við þurfum líka að fá svör við því hver næstu skref ríkisstjórnarinnar ætla að vera í þeim efnum að bæta hag aldraðra. Hér er því einungis um fyrsta skref að ræða eins og hefur komið fram í þessari umræðu. Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni innan félags- og tryggingamálanefndar, þ.e. að fara yfir þetta frumvarp sem mun bæta kjör aldraðra sérstaklega. Það er spurning eins og ég hef áður sagt hér hvort ekki megi gera betur í þeim efnum. En við munum skoða það sérstaklega á vettvangi félags- og tryggingamálanefndar við umfjöllun um þetta mál.