135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[14:56]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það má taka undir með þeim sem hér hafa talað að nú er lagt fram frumvarp sem er til bóta og kemur þeim sem þurfa að þiggja bætur til góða. Það getur verið ágreiningur um hvort nægjanlega sé að verki staðið og við frjálslynd lögðum fram ákveðnar tillögur í þingbyrjun sem fjalla um svipað málefni og hér er um að ræða. Við gerðum m.a. tillögur um að atvinnutekjur lífeyrisþega eða maka skuli ekki hafa áhrif við útreikning á fjárhæð bóta.

Við gerðum jafnframt tillögu um að séreignarlífeyrissparnaður lífeyrisþega hafi ekki áhrif á útreikning og fjárhæð bóta.

Í þriðja lagi gerðum við tillögu um að þegar um er að ræða elli- og örorkulífeyri, teljist hann ekki til tekna, til samanburðar við 17. og 18. gr. almannatryggingalaga, þrátt fyrir 2. mgr. og atvinnutekjur lífeyrisþega eða maka hans, bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð o.s.frv.

Að mörgu leyti vildum við því ganga lengra en kveðið er á um í frumvarpinu þó að miðað við það kerfi sem við höfum sé verið að stíga skref í rétta átt. Við frjálslynd hefðum viljað að tekið hefði verið myndarlegar á sumum málum og komið meira til móts við óskir aldraðra í þeim atriðum, eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson vék hér að í ræðu sinni áðan. Hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á að hér væri fólk sem væri með tekjur á bilinu 600 þús. til eina milljón á mánuði að fjalla um tekjur og hagsmuni einstaklinga í þessu þjóðfélagi sem búa við lágmarkskjör, 130 þús. kr. á mánuði. Þó að hv. þm. Pétur Blöndal telji að það sé mjög auðvelt að lifa af slíkum tekjum hygg ég að það sé æði örðugt, svo ekki sé meira sagt.

Við búum við vaxandi dýrtíð í þjóðfélaginu. Kostnaðurinn sem leggst á heimilin er að margfaldast svo sem vegna hækkunar á olíuvörum, sem þýðir að ferðakostnaður er miklu meiri, og vegna yfirvofandi hækkunar á matvörum og öðrum neysluvörum. Það er lítið sem einstaklingur með 130 þús. kr. á mánuði getur leyft sér og dugar jafnvel ekki til fyrir brýnustu lífsnauðsynjum því að þar er hann kominn yfir þau skattmörk sem ríkisstjórnin hefur viðhaldið. Hún hefur ekki farið að tillögum okkar frjálslyndra um að skattleysismörk séu miðuð við 150 þús. kr. þannig að lágmarkstekjur eins og þær sem hér um ræðir séu að öllu leyti undanþegnar skatti. Það væri eðlilegt og hið mesta bjargráð fyrir þá sem lægstu launin hafa og búa við bág kjör í þessu landi. Þannig höfum við frjálslynd viljað standa að málum hvað þetta varðar, að einfalda kerfið og gera það aðgengilegra, heppilegra og bæta kjör þeirra sem mest þurfa á að halda í þjóðfélaginu.

Ég áttaði mig ekki alveg á því hvað hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson meinti þegar hann vék í ræðu sinni að þessu frumvarpi. Samhliða því sagði hann að við gætum ekki reiknað með því að ríkissjóður verði eins sterkur núna og hann hefur verið. Ég gat ekki skilið þingmanninn öðruvísi en að hann teldi í raun að með því frumvarpi sem hér liggur fyrir væri lagt í of mikinn kostnað fyrir ríkissjóð, jafnvel miðað við þá sterku stöðu sem ríkissjóður hefur í dag. Mér þætti fróðlegt að vita hvort þetta séu almennar hugleiðingar hjá hv. þm. Ármanni Kr. Ólafssyni um að standa eigi öðruvísi að málum við að bæta kjör láglaunafólks í þjóðfélaginu. Er hann í raun með fyrirvara gagnvart því frumvarpi sem við ræðum hér? Er ef til vill um almenn varnaðarorð að ræða um að til einhverra skerðinga gæti komið sem þingmaðurinn veit kannski betur um en aðrir.

Hv. þm. Ellert B. Schram kom víða við í ræðu sinni og benti á þá mikilvægu staðreynd að kerfið eigi að vera fyrir þá sem minna bera úr býtum. Það er jú það sem allt velferðarkerfið byggir á og það er það sem um er að ræða. Það er bara spurningin um hvernig viljum við hafa það, hvernig koma má slíkum bótum við með einföldum hætti, og eins og hv. þingmenn hafa talað um hver á fætur öðrum, að bæturnar berist til þeirra sem mest þurfa á að halda. Jafnframt hafa menn sagt — og hv. þm. Ellert B. Schram sagði í sinni ágætu ræðu hér áðan að samfélagið þurfi að láta meira af hendi rakna. Ég skil þingmanninn þannig að hér sé ekki nóg að gert miðað við frumvarpið sem hæstv. félagsmálaráðherra leggur fram, að hv. þm. Ellert B. Schram telji að meira þurfi að koma til en það sem felst í frumvarpinu sem hér er um ræðir. Það voru þó engar sérstakar skilgreiningar eða skýringar á því hvað átt var við. Ekki kom fram hvað þyrfti þá að koma til viðbótar við það sem kveðið er á um í frumvarpinu, um þá samfélagslegu aðstoð sem þingmaðurinn telur nauðsynlegt að komi til viðbótar, ef ég hef skilið hann rétt.

Þá vék hv. þm. Ellert B. Schram jafnframt að því að með frumvarpinu sem hér liggur fyrir væri verið að greiða úr hinum miklu flækjum sem væru í málaflokknum sem hér um ræðir. Hv. þm. vísaði hvað það varðar í ræðu hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur þar sem hún fjallaði um kerfið, sem er að mörgu leyti ógagnsætt, sem við búum við í þessum málaflokki. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir vísaði til þess að nauðsynlegt væri að núllstilla kerfið til þess að um væri að ræða samstillt og eðlilegt velferðarkerfi, sem mér skildist á hv. þingmanni að ekki væri um að ræða í dag. Vel kann svo að vera og það er atriði sem hægt er að taka undir. Að sjálfsögðu verður að miða heildarlöggjöf velferðar við að þeir sem á þurfa að halda fái aðstoð og að þeim sé ekki mismunað þannig að ákveðnir hópar sem eru sérflokkaðir — af því að nú flokkum við fólk niður í mismunandi hópa sem fá mismunandi bætur og aðstoð eftir því hvaða hópi þeir tilheyra. Hv. þm. Ellert B. Schram og Ragnheiður Elín Árnadóttir hafa nefnt að oft og tíðum væri um óeðlilega flokkun að ræða í slíku sambandi.

Þá veltir maður fyrir sér: Er það rétt sem fram kom í ræðu hv. þm. Ellerts B. Schrams áðan að um sé að ræða frumvarp sem greiði úr þeim miklu flækjum sem eru í velferðarkerfinu? Þegar ég skoða frumvarpið sem hér liggur fyrir verð ég að vera sammála Ragnheiði Elínu Árnadóttur um að svo er ekki. Mér virðist sem að mörgu leyti séum við að flækja kerfið. Sumir segja að fyrst þurfi að flækja hlutina til að geta komið á almennri reglu í framhaldi af því. Ekki veit ég hvort það hefur verið viðmiðun ríkisstjórnarinnar.

Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir kom með athyglisverða hugmynd inn í umræðuna þar sem hún talaði um að núllstilla kerfið. Ég skildi það þannig að hv. þingmaður ætti við að taka þyrfti allar velferðargreiðslur til skoðunar þannig að fólki innan þeirra mörgu mismunandi hópa sem fá bætur frá ríkinu væri ekki mismunað. Við höfum eitt kerfi, fæðingarorlofskerfið, þar sem um verulega mismunun er að ræða, þar sem um er að ræða mjög háar greiðslur og miklu hærri greiðslur til sumra þeirra sem taka fæðingarorlof en almennt þeirra sem þiggja bætur úr hendi ríkisins. Það er spurning um — svo ég vísi nú máli mínu til jafnaðarmannsins Ellerts B. Schrams, hvort hann telji það eðlilega jafnaðarmennsku að mismuna borgurunum með þeim hætti sem lögin um fæðingarorlof gera ráð fyrir, að þeir sem eru tekjuháir beri meira úr býtum en þeir sem eru tekjulágir. Mér finnst það þá alla vega skrýtin jafnaðarmennska.

Ég hef verið að velta fyrir mér sem hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir fjallaði um, að einfalda þyrfti kerfið. Menn hafa reyndar bent á ákveðna leið til að einfalda velferðarkerfið, leið sem mundi reyna mjög á að menn hefðu eðlilegar viðmiðanir hvað varðar lágmarkstekjur, að hér væri öflugt skatteftirlit. Það er þá spurningin um að breyta kerfinu með þeim hætti að velferðarkerfið sé í formi neikvæðra tekjuskatta. Ég tel að vísu að það sé rangt hugtak, að eðlilegra sé að tala um jákvæða tekjuskatta, en þá er miðað við að þeir sem eru undir ákveðnum viðmiðunarmörkum í tekjum fái það sem upp á vantar í bætur frá ríkisvaldinu. Þá verður að miða við að þær bætur sem þannig koma — og miða verður líka við það sem snertir velferðarkerfið sem við búum við í dag — í öllum tilvikum verðum við sem ein ríkasta þjóð í heimi að búa þannig umgerð í velferðarmálum okkar að þeir sem minnst hafa fyrir sig að leggja hafi til hnífs og skeiðar en þó ekki einungis það. Við heyrum fréttir af fólki á öldrunarstofnunum og af öryrkjum sem segja: Við eigum ekki fyrir mat út mánuðinn. Ef ekki kæmi til aðstoð vina og ættingja, gætum við ekki fengið að borða.

Hvaða markmið viljum við, sem ein ríkasta þjóð í heimi, setja okkur í sambandi við velferð? Viljum við setja okkur þau markmið að allir borgarar eigi kost á mannsæmandi lífskjörum? Í því felst að sjálfsögðu fullnægjandi húsnæði. Í því felst að sjálfsögðu að viðkomandi hafi möguleika á brýnustu nauðþurftum. En í mínum huga felst miklu meira í þessu hugtaki. Í því felst að hver einasti maður geti búið við það atlæti að geta notið menningarlífs, lista og frístunda. Við erum með þær aðstæður í þjóðfélagi okkar að það er fjarri því að þeir sem fá bætur frá hinu opinbera geti veitt sér það.

Ég tel því að sú umræða sem hér hefur farið fram og ég hef hlýtt á hafi verið af hinu góða og hafi skýrt margt. Frumvarpið sem hér um ræðir er tvímælalaust til bóta hvað varðar hagsmuni þeirra sem vikið er að en við frjálslynd hefðum viljað ganga lengra. Við hefðum viljað einfalda kerfið og setja mörkin með þeim hætti að þeir sem á þurfa að halda geti lifað lífi sem hægt er að sætta sig við í nútímaþjóðfélagi sem gerir meira og býður upp á meira en að fólk hafi einungis brýnustu lífsnauðsynjar.