135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

almannatryggingar.

410. mál
[15:17]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ármanni Kr. Ólafssyni fyrir orð sín hér áðan. Ég skildi hann í sjálfu sér ekki þannig að hann væri á móti frumvarpinu sem um er að ræða heldur taldi ég að hann hefði sett fram ákveðna fyrirvara sem mér fannst eðlilegt að fá ákveðna skýringu á. Mér fannst eðlilegt að við gætum gert okkur grein fyrir því hvað lægi að baki orðum hans þegar hann talaði um bága stöðu ríkissjóðs.

Þær skýringar eru komnar fram og ég sé ekki annað en að við séum í sjálfu sér efnislega sammála um að standa beri vörð um hagsmuni þeirra sem minnst hafa fyrir sig að leggja í þjóðfélaginu. Menn geta svo haft mismunandi viðmið um það hve langt eigi að ganga og við hvaða tekjur eigi að miða. En ég lýsti skoðunum mínum áðan og sé ekki ástæðu til að ítreka þær.

Að sjálfsögðu gerum við okkur grein fyrir því að í þjóðfélaginu skiptast á skin og skúrir. Tvímælalaust verður að gæta aðhalds og sparnaðar varðandi útgjöld ríkisins. En Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur verið samfellt í ríkisstjórn frá 1991, hefur einmitt ekki gætt þess. Opinberum starfsmönnum hefur aldrei fjölgað jafnmikið og einmitt á því tímabili sem þessi ríkishyggjuflokkur hefur verið í ríkisstjórn, útgjöld ríkisins hafa ekki hækkað jafnmikið og einmitt á þessu tímabili og einmitt þar þarf að draga saman. Á því sviði þarf að gæta aðhalds og sparnaðar. Það á hins vegar ekki að spara þegar um er að ræða velferð þeirra sem minnst hafa fyrir sig að leggja í þjóðfélaginu.