135. löggjafarþing — 68. fundur,  25. feb. 2008.

áform um frekari uppbyggingu stóriðju.

[15:49]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra þingforseti. Stóriðjumál verða væntanlega á dagskrá eitthvað áfram hjá okkur og við þurfum að fjalla um þau. Ég hef talið að stóriðju þyrfti í Helguvík, ég hef talið að stóriðju þyrfti á Bakka við Húsavík.

Við á Suðurnesjum búum við það að varnarliðið er farið af okkar svæði og sú byggingarbóla sem hátt hefur risið er að hjaðna. Síðan kemur niðurskurður á veiðiheimildum í þorski og bann við loðnuveiðum, áhrif af ónýtu kvótakerfi gera það að verkum að blikur eru á lofti og við þurfum að fá ný atvinnutæki. Álver í Helguvík er því mjög af því góða. Við þurfum að fá mengunarkvóta fyrir Helguvík og Bakka, það er engin spurning um það. Nú, þegar hlutabréfamarkaðurinn er að síga og virðist vera í frjálsu falli, mun það hafa veruleg áhrif á atvinnulíf á Íslandi og við þurfum að spýta í lófana og reyna að halda áfram að byggja upp og búa okkur til gjaldeyristekjur.

Því er ekki að neita að ríkisstjórnin og þeir flokkar sem standa að henni, annars vegar Samfylkingin og hins vegar Sjálfstæðisflokkurinn, virðast ekki vera sammála um eitt eða neitt í þessu. Maður áttar sig ekki á því á hvaða vegferð ríkisstjórnin er sem slíkt. Það er auðvitað sorglegt þegar þessir flokkar tala hvor í sína áttina í þessum málum.