135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

402. mál
[18:01]
Hlusta

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sturlu Böðvarssyni, hæstv. forseta Alþingis og fyrrverandi samgönguráðherra, fyrir viðbrögð við þessari tillögu og jákvæða umfjöllun um hana. Ég ætla að leyfa mér að tefja hæstv. samgönguráðherra aðeins a.m.k. í þingsalnum í dag þó að ég vilji ekki tefja hann mikið í þeim mikilsverðu störfum sem hans bíða við uppbyggingu og betrumbætur í samgöngumálum.

Ég er sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Sturlu Böðvarssonar, það eru auðvitað margir þættir sem þarf að huga að, t.d. skipulagsþættinum sem er mikilvægur. Ég hef verið í sambandi við bæjarstjórann í Reykjanesbæ og veit það frá honum að verið er að vinna að því að í aðalskipulagi Reykjanesbæjar verði gert ráð fyrir að einhvers konar samgöngumáti af þessum toga geti farið þar um. Ég get líka getið þess að í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur, sem var unnið þegar ég var formaður skipulagsnefndar í Reykjavík, var í fyrsta skipti settur inn möguleikinn, svigrúmið, til að koma á svokallaðri sporbundinni umferð enda þó að ekki væri neitt komið á þetta stig á þeim tíma. Það er því alveg rétt að huga þarf að því í þessu samhengi og það er ekki síður mikilvægt að tryggja að sveitarfélögin geri ráð fyrir að til framtíðar litið gætu orðið annars konar samgöngumátar en einungis malbikaðar götur og vegir.

Ég vil sérstaklega fagna yfirlýsingu hv. þm. Sturlu Böðvarssonar um Sundagöng, hann styður það að Sundabraut verði lögð í göng. Þetta er baráttumál sem hefur verið lengi í umræðu og mér virðist að borgarstjórn Reykjavíkur sé til að mynda orðin algerlega einhuga, hvar í flokki sem menn standa, um þá leið sem menn vilja fara og það er gott að fá stuðning við hana í þinginu.

Ég vil enn og aftur geta þess, af því að hér var talað um kostnaðinn, að það er mjög mikilvægt að menn meti ávinninginn líka, meti ekki bara hráan kostnað við að koma á samgöngum af þessum toga heldur líka ávinninginn til lengri tíma litið. Þess vegna er þetta auðvitað hugsað sem langtímamál. Við erum ekki að tala um að þetta geti orðið að veruleika á morgun eða hinn, að í fyrstu samgönguáætlun sé komið lestarspor, heldur sé þetta fyrst og fremst athugun á því hver fýsileikinn er fyrir samfélag eins og hér.

Þegar ég hef verið að kynna mér þetta mál annars staðar hefur það komið upp úr dúrnum varðandi léttlestir eins og verið er að tala um á höfuðborgarsvæðinu, í þéttbýlinu, að það hefur verið mat þeirra sem hafa verið að leggja slíkar brautir annars staðar að það þurfi íbúakjarna upp á 150–180 þús. manns, upp í 250 þús., til að standa á bak við léttlestakerfi. Auðvitað getur það ráðist svolítið af því hvernig byggðin er skipulögð, hvort hún er þétt eða gisin. Á höfuðborgarsvæðinu er hún tiltölulega gisin í samanburði við aðrar borgir þannig að það kann að vera — en höfuðborgarsvæðið er orðið 180 þús. manna svæði í dag og þar mun áreiðanlega fjölga til framtíðar litið. Ég held því að það sé komið að því að eðlilegt sé að við skoðum þetta.

Við verðum vissulega líka að skoða umhverfisþáttinn og mengunarþáttinn. Þjóðhagslegur ávinningur hlýtur að vera fólginn í því að draga úr mengun þó að erfitt sé að mæla það í krónum og aurum. Að vísu verða kannski að koma nýir mælikvarðar í því sambandi. Þegar menn eru að kaupa sér mengunarkvóta, losunarkvóta af ýmsu tagi, þegar mengunin er orðin vara á markaði, er kannski kominn verðmiði á hana, það hlýtur þá að vera auðveldara að meta það, það hlýtur að koma inn í þóðhagslega arðsemisútreikninga.

En sem sagt, frú forseti, ég vil enn og aftur þakka þá jákvæðu umfjöllun sem málið hefur fengið. Ég vænti þess að við getum afgreitt það til 2. umr. úr samgöngunefnd í vor. Vonandi þannig að samgönguráðherra fái það fyrir sumarleyfi þannig að hann geti glímt við það í sumarleyfinu sínu hvernig hann ætlar að láta þessa athugun eiga sér stað því að hún er brýn.