135. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2008.

kostnaður við gerð Héðinsfjarðarganga, Fáskrúðsfjarðarganga og ganga um Almannaskarð.

356. mál
[14:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir greinargóð svör. Það sem vekur athygli í þessu eru nokkur atriði. Ég vil þó sérstaklega taka eitt út úr.

Kostnaðurinn á kílómetraverði er samkvæmt tilboðum í Héðinsfirði 840 millj. kr. Í tilboðinu er kostnaðarverð rétt um 500 millj. kr. á kílómetra af tilbúnum göngum. Kostnaðarverð á gangagerðinni sjálfri, án vegalagningar og tæknibúnaðar, er 370 millj. kr. með veggöngum og fjórum vegskálum. Þess vegna er spurt sérstaklega: Er ekki eitthvað bogið við það að kílómetrinn hækki í meðförum Vegagerðarinnar úr rúmum 500 millj. kr. í rúmlega 800 millj. kr.?

Vegagerðin getur sérstaklega reiknað með í því dæmi hönnun og eftirlitskostnað. Nú er það svo að eftirlitskostnaður er líklega umsaminn að minnsta kosti 400 millj. kr., tveggja og hálfs manns verk í tvö ár. Það er vel greitt og kann að vera að það kunni að þurfa að skoða það betur. Eðlilegur hönnunarkostnaður á svona mannvirki er líka 6–8% af tilboði, þ.e. 350–400 millj. kr. Þetta eru megintölurnar. Það kann að vera í samningum eitthvað varðandi verðbólgustig og slíkt en það getur aldrei verið á þeim nótum að það réttlæti þann mun að fara úr 500 millj. kr. í 870 millj. kr. kílómetrinn. Það er það sem er athugavert og (Forseti hringir.) þarf að skoða.