135. löggjafarþing — 71. fundur,  27. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[15:26]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Umræðan í allsherjarnefnd var málefnaleg. Menn stóðu ekki þar með kreppta hnefa hver gegn öðrum. En það vaknaði ótrúlegur fjöldi spurninga og mismunandi sjónarmið komu fram, meðal annars sjónarmið um hugsanlegt brot á jafnræðisreglu.

Lesi maður frumvarpið eitt og sér sem áhugamaður um frumvörp er það ekki flókið. Ég get alveg fallist á það. En það er flókið að skoða það í samhengi við annað sem við vildum gera í tengslum við kjördæmabreytingarnar og í tengslum við hvernig við viljum styrkja þingið. Um það hygg ég að við hv. þm. Siv Friðleifsdóttir séum sammála, að styrkja þingið sem allra mest. En hverjar verða afleiðingarnar? Fyrstu afleiðingarnar blasa við, þ.e. að það verði ráðnir aðstoðarmenn allra þingmanna. Þá búið að eyrnamerkja fé í það sem menn hefðu hugsanlega viljað forgangsraða í annað.

Allar umræðurnar í allsherjarnefnd sem leiddu til þess að hv. formaður nefndarinnar sagði að annaðhvort yrðum við að taka þetta svona eins og þetta væri með þeim breytingum sem höfðu á orðið eða fresta málinu segja mér að hér er ekki um mál að ræða sem hefur verið hugsað til enda. Það skyldi maður skoða. Við skulum láta reynsluna hins vegar tala í þeim efnum.