135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[16:51]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Viðhorf mín og ábendingar varðandi sjálfsstjórn og sjálfstæði sveitarfélaganna koma orkufyrirtækjum á Suðurnesjum ekkert við. Það má vel vera að hv. þingmaður sé mér ósammála um það að ákvæði sem banna sveitarfélögum að framselja vatns- og jarðhitaréttindi sín kunni að brjóta í bága við ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar sem segir að sveitarfélög skuli ráða málefnum sínum. (Gripið fram í: Gagnvart framkvæmdarvaldinu.) Já, gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það var ábending um það til þeirra sem sitja í hv. iðnaðarnefnd að taka það mál til skoðunar.

Það er rétt að hæstv. iðnaðarráðherra leitaði sér lögfræðiálits á því hvort slík reglusetning stæðist. Sá tiltekni lögfræðingur sem gaf það álit komst að þeirri niðurstöðu. Ég lýsti því hins vegar að hér væri hugsanlega um takmarkað tilvik að ræða sem rétt væri að kanna til hlítar í nefndinni en felldi engan úrskurð um það hvort slík ákvæði brytu í bága við stjórnarskrána. Mín viðhorf lúta (Forseti hringir.) einvörðungu að því að þetta séu (Forseti hringir.) mikilvæg mál sem þurfi að skoða.