135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[18:17]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Það er rétt, og ég tek undir það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi í þeim efnum, að mér finnst sjálfsagt mál að skoða að færa það hlutfall til samræmis við þetta.

Ég geri alls ekki lítið úr því að það sé mikilvægt sem varnaraðgerð, ef maður býst við hinu versta, að tryggja þetta 2/3 hluta eignarhald, ég geri ekki lítið úr því. En ég sé líka hættuna á að menn gagnálykti og segi nú: Þá er allt í lagi að einkaaðilarnir komi þarna inn að 1/3. Ég held að það muni skapa vandræði og ég held að við værum betur laus við það. Helst vildi ég sjá að þar væri það í gadda slegið að þessi þjónusta, þessi starfsemi, væri opinber.

Ég trúi líka á frumkvæði og frelsi og framtak einstaklingsins, alveg grjótharður trúmaður á það, (Gripið fram í.) en ég segi líka: Það er hægt að virkja það, það hefur verið gert oft með glæsilegum árangri í opinberum fyrirtækjum eins og í einkafyrirtækjum. Það vinnur nefnilega líka fólk í opinberum fyrirtækjum, fólk sem vinnur vel og samviskusamlega. Hvers vegna var Orkuveita Reykjavíkur svona spennandi og eftirsóknarverð? Var það af því að hún var einkahlutafélag? Nei, það var af því að þar vinnur gott starfsfólk sem leggur metnað í vinnu sína og er ekkert að velta því fyrir sér hvort það stendur hf. eða eitthvað annað aftan við nafnið á fyrirtækinu.

Það er leiðindamálflutningur sem alltaf gengur út frá því að menn vinni ekki vinnuna sína, hugsi ekki heila hugsun, að heilinn í þeim virki ekki nema þeir vinni hjá einkaaðilum. Hvað á þetta að þýða? Er það nú ekki einmitt þannig að við sjáum að þarna hefur byggst upp verðmæt þekking og mikilvæg starfsemi í því rekstrarformi sem þar hefur verið og reynst okkur vel, reynst okkur alveg ágætlega. Þess vegna eru menn svona gráðugir í þetta, sumir hverjir, af því að þarna er verðmæt þekking inni.

Gleymum svo ekki hinu að frá hinni hliðinni er það almenningur sem að uppistöðu til hefur byggt upp þessi fyrirtæki sem notendur, hefur borgað reikningana áratugum saman og það er þaðan sem verðmætin eru komin sem hafa gert þetta að verðmætum fyrirtækjum, byggt upp þekkinguna, fjárfestingarnar o.s.frv. Hvernig sem við nálgumst málið er gífurlega mikilvægt (Forseti hringir.) að ganga hægt um gleðinnar dyr og virða þessa stöðu.