135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[18:24]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með síðasta hv. ræðumanni. Bæði er hér á ferðinni eitt af stærri málum þingsins nú í vetur og eins hitt, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði réttilega, er tilgangurinn með því sannarlega göfugur. Þetta er merkisdagur og full ástæða til að fagna því frumvarpi sem hæstv. iðnaðarráðherra flytur. Ég held að mér sé óhætt að segja að við jafnaðarmenn, við í Samfylkingunni, séum stolt af okkar ágæta iðnaðarráðherra og býsna montin af því merkilega máli sem hann flytur eftir tiltölulega skamman tíma í embætti í flóknu og að mörgu leyti erfiðu viðfangsefni, eignarhaldi á auðlindum á Íslandi og nýtingu þeirra, stóru deilumáli sem hann nú auðsjáanlega hefur náð víðtækri sátt um: að tryggja eignarhald almennings á þeim auðlindum sem við enn eigum í gegnum ríkið og í gegnum sveitarfélögin og höfum tök á.

Fyrir okkur jafnaðarmenn er hér um mikið grundvallaratriði að ræða, afstaða okkar til eignarhalds á auðlindum er sannarlega einn af hornsteinum jafnaðarstefnunnar, sú skoðun okkar að auðlindir eigi að vera í almannaeigu, ekki bara orkuauðlindir heldur auðlindir almennt, og að tryggja eigi jafnan aðgang að þeim og gera arðsemiskröfu til þeirra sem eigi að nýtast til samfélagslegra verkefna, til þeirrar þjónustu sem við viljum eiga saman, velferðarþjónustunnar. Sannarlega hefði það verið gæfulegra ef við hefðum til að mynda hagað ráðstöfun okkar á fiskinum í sjónum með einhverjum líkum hætti.

Við hljótum nú, þegar við stöndum frammi fyrir áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, að hugleiða hvort það hafi ekki einfaldlega verið rangt á sínum tíma að festa ekki enn betur í lög að framsalið á aflaheimildunum í sjónum væri tímabundið og tryggt að eignarhaldið væri enn kirfilegar en er í gildandi lögum eign almennings og þjóðarinnar og að þjóðin gæti gert til þeirra auðlinda sinna kröfur um arð og endurheimt auðlind sína með reglulegum hætti og ráðstafað henni á ný á jafnræðisforsendum til þeirra sem nýta vildu.

Sannarlega getur hið sama átt við um ýmiss konar önnur takmörkuð gæði sem rétt væri að ráðstafa með því að selja aðgang að því og tryggja jafnan aðgang en þannig að framsalið sé aldrei varanlegt heldur ávallt tímabundið og gefi okkur þess vegna kost á því að endurskoða ráðstöfun auðlinda með reglulegu millibili eða takmarkaðra gæða, svo sem eins og fjarskiptarása í lofti eða loftslagskvóta eða hvað það er nú annað sem menn hafa í þessu efni bent á að nýta mætti með þeim hætti og við þekkjum m.a. úr umræðunum í kringum auðlindanefndina.

Í þessu ljósi er það skref sem hér er verið að stíga býsna merkilegt og sögulegt ef þetta verður að lögum á yfirstandandi þingi. Þetta er nú, að ég hygg, mitt sjötta þing og ég held að ég megi segja að ég hafi ekki setið önnur þing þarfari ef tekst að gera þetta að lögum nú fyrir vorið.

Því hefur líka oftlega í þeirri umræðu verið hreyft að allra best væri ef sérstaklega væri haldið utan um arð eða afgjald af slíkum sameiginlegum eignum almennings, til að mynda í ákveðnum sjóði — auðlindasjóð hafa menn talað um og fjallað um og skrifað um. Hér nokkuð sunnar á hnettinum þekkja menn t.d. auðlindasjóð sem kallaður er „sjóðurinn handa komandi kynslóðum“ og ég held að endurspegli skemmtilega þá hugsun sem í því felst, þá hugsun að sannarlega séu auðlindirnar sameign okkar en ekki bara sameign okkar sem nú lifum heldur sameign Íslendinga og þá einnig hinna ókomnu kynslóða og það sé því skylda okkar að ganga þannig frá og búa þannig um hnútana að við framseljum ekki þær auðlindir sem við höfum fengið í vöggugjöf með varanlegum hætti heldur tryggjum að það sé tímabundin ráðstöfun.

Þó að mönnum kunni að þykja 65 ár langur tími, og það hefur verið nefnt hér í umræðunni, er rétt að halda því til haga að í frumvarpinu er það aðeins sett sem hámarkstími á framsali heimildanna og eins hitt að þó að framselt væri til svo langs tíma kemur það þó sannarlega aftur og aftur gefst tækifæri til þess að ráðstafa því út frá þeim sjónarmiðum sem þá eru uppi. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Ólöfu Nordal að um er að ræða miklar fjárfestingar til þess að virkja þessar auðlindir sem iðulega eru afskrifaðar á áratugum og jafnvel allt að 65 árum. Við höfum séð hér í þinginu áður arðsemisútreikninga á stórum fjárfestsingarverkefnum í orkuiðnaði sem einmitt hafa verið að horfa til svo langs tíma þannig að það er eðlilegt að fyrir því sé svigrúm að framselja til svo langs tíma þó að það megi taka undir að æskilegt væri að framsalið gilti jafnan til umtalsvert skemmri tíma.

Hæstv. iðnaðarráðherra stóð frammi fyrir því viðfangsefni í haust að ráða fram úr þeirri stöðu sem uppi var í sumar. Þegar hlutirnir tóku að hreyfast í orkuiðnaðinum sáu menn að löggjafinn og iðnaðarráðherrar höfðu vanrækt að ganga þannig frá málum að tryggt væri að hagsmunir almennings væru öruggir og eignarhald okkar á auðlindunum. Í kringum allan darraðardansinn í kringum REI og kaup einkaaðila inn í Hitaveitu Suðurnesja og öll þau ævintýri sem menn þekkja varð þetta ljóst. Það er vegna þess að fyrir ekki mörgum árum innleiddum við alveg nýja skipan í raforkumálum. Í stað þess að einvörðungu opinber fyrirtæki gætu nýtt virkjunarrétt og reist virkjanir og rekið var, með því að við undirgengumst evrópskar tilskipanir, sú skipan innleidd hér að einkaaðilar fengu heimild til að ráðast í virkjanir og eiga í ýmissi starfsemi á raforkusviði. Löggjafinn hafði ekki gætt að því við þessa breytingu að aðskilja annars vegar auðlindina sjálfa, þ.e. fallvötnin eða jarðhitann, og hins vegar virkjanirnar. Þess vegna er það lagaumhverfi sem við búum við í dag á þann veg að ef virkjun er seld er um leið verið að selja með henni auðlindina sem hún nýtir því að í núverandi lögum er engin sérstök aðgreining þar á.

Einnig varð hér árið 1998 ákaflega óheppileg breyting á lögum undir forustu Framsóknarflokksins, í lögunum um nýtingu á auðlindum í jörðu. Eignarréttur manna á námum í jörðu hafði fram að því aðeins náð niður á 400 metra dýpi. Eins og menn þekkja eru einhverjar mikilvægustu auðlindir íslensku þjóðarinnar í dag, háhitaauðlindirnar, sem yfirleitt er að finna á um tveggja kílómetra dýpi og jafnvel neðar. Þær höfðu því ekki verið á sviði einkaeignarréttarins fram að því heldur sameign okkar og allt það sem undir 400 metrum var. Með þeirri lagabreytingu eignuðust landeigendur það sem var neðar en 400 metrar og alveg niður að miðju jarðar og þar með fór nokkuð af háhitasvæðum okkar undir einkaeignarrétt, fékk einkaeignarréttarlega stöðu.

Þessar breytingar, evrópska tilskipunin og síðan lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, gerðu það að verkum að við hefðum þurft fyrir margt löngu að setja einmitt þau lög sem hér eru fram komin og tryggja varanlega yfirráð almennings og eign opinberra aðila á þeim auðlindum sem við þó höfum ekki misst úr höndunum með þessum hætti eða öðrum. Það er því fagnaðarefni að á ekki lengri tíma skuli hæstv. iðnaðarráðherra hafa tekist það. Það er líka sérstakt ánægjuefni að heyra hversu víðtækan stuðning málið hefur hér í þinginu frá þingmönnum allra flokka og ekki síst þann góða skilning sem samstarfsflokkur okkar, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur sýnt þessu máli. Það er auðvitað eðlilegt að eftir deilurnar m.a. um vatnalögin á síðasta kjörtímabili hafi ýmsir í þeirra röðum ákveðnar efasemdir um einstaka þætti í þessu frumvarpi.

Ég held þó að engin ástæða sé til þess vegna þess að það er alveg rétt sem fram kemur hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að með því að skilja milli auðlindanna annars vegar og virkjananna hins vegar er verið að skapa ákveðið tækifæri fyrir einkaaðila, fyrir einkafyrirtæki og fyrirtæki á markaði, vegna þess að hér er verið að leggja grunninn að því að almenningur í landinu og trúlega flest stjórnmálaöfl í landinu geti verið sátt við það að einkaaðilar og fyrirtæki á markaði taki í miklu meiri mæli að sér að reisa og reka virkjanir til raforkuframleiðslu og þess vegna sé það hagsmunamál þeirra sem vilja aukna markaðsvæðingu í raforkugeiranum að við einmitt stígum þetta skref, tryggjum yfirráð almennings yfir auðlindunum þannig að sátt geti tekist um aukna markaðsvæðingu og aukna þátttöku einkaaðila og fyrirtækja í þeirri starfsemi sem fram fer í raforkumálum.

Ég held að í því efni greini okkur kannski nokkuð á mig og hv. þm. Steingrím J. Sigfússon. Ég lít svo á að á Íslandi séum við búin að virkja til almenningsþarfa. Það var sameiginlegt verkefni okkar Íslendinga að virkja til okkar eigin þarfa, virkja fyrir heimili okkar og allt almennt atvinnulíf í landinu og vegna eðlis þessarar starfsemi og hins flókna eðlis raforkunnar fór best á því að það væri gert í sameiginlegum fyrirtækjum og líka vegna þess að í því fólst auðvitað ákveðið eignarhald og hagnýting á auðlindum sem ekki var krafist endurgjalds fyrir.

Þær virkjanir sem við eigum hins vegar eftir að ráðast í í framtíðinni verða fyrst og síðast í þágu orkufreks iðnaðar, oftar en ekki í þágu orkufreks iðnaðar á vegum alþjóðlegra fyrirtækja sem eru að keppa á heimsmarkaði um sölu á vöru, og ég hef enga sannfæringu fyrir því að það sé verkefni ríkisins eða sveitarfélaganna að ráðast í virkjanir fyrir slíka starfsemi. Ég held að sá tími sé kominn að við eigum þvert á móti að draga hið opinbera í hlé í slíkum framkvæmdum, hægt og rólega, ekki með neinum kollsteypum, en kalla á það að einkaaðilar og fyrirtæki á markaði sinni þessum verkefnum í framtíðinni, líka vegna þess að sem umhverfissinni — og ég veit að margir í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði deila þeim sjónarmiðum með mér — tel ég að það sé óheppilegt að ríkið sé í senn eignaraðili að orkufyrirtækjunum, leyfisveitandi, eftirlitsaðili og sá sem tekur hinar stóru pólitísku ákvarðanir. Ég er t.d. fullkomlega sannfærður um að ef ríkisvaldinu hefði ekki verið til að dreifa sem framkvæmdaraðila við Kárahnjúkavirkjun hefði hún aldrei verið reist, og að það sé mikilvægt, einmitt vegna þeirra (Forseti hringir.) umhverfissjónarmiða sem nú hafa verið að ryðja sér til rúms, að ríkið sé ekki framkvæmdaaðilinn og gerðar verði (Forseti hringir.) sjálfsagðar og eðlilegar arðsemiskröfur til þeirra verkefna á sviði raforkumála sem fram undan eru á næstu árum.