135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[20:06]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skýrði það hér í dag að ég lít á þetta sem eins konar málamiðlun á milli sjónarmiða jafnaðarmannsins, sem gerir sér grein fyrir hinni samfélagslegu ábyrgð og félagslegu skyldu sem ríkið hefur til þess að tryggja þær nauðþurftir sem felast í vatni og orku gagnvart íbúunum, og á hinn bóginn gagnvart því sem má kalla þörfina fyrir að frumkvæði einstaklingsins fái líka notið sín.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega vatnsveiturnar og þau átök sem urðu um vatnsveitur sem ég tók þátt í á sínum tíma. Þar varð niðurstaðan sú, og það er mjög fróðlegt að skoða hvernig sú niðurstaða hefur spilað sig inn og fram í raunveruleikanum, eftir mikil átök að sveitarfélögin máttu framselja réttinn til að reka vatnsveitur til fyrirtækja sem væru í meirihlutaeigu sveitarfélagsins. Þannig er hin kórrétta versjón. Því var náttúrlega spáð — og við skulum ekkert rifja upp hverjir spáðu því — að það mundi leiða til þess að farið yrði út á braut einkavæðingar vatnsveitnanna. Það hefur ekki gerst, það hefur nefnilega ekki gerst.

Ég tel að varnarlínan, sem hv. þingmaður nefndi og ég sjálfur kallaði svo, í þessu frumvarpi sé líka sóknarlína vegna þess að hún gefur okkur viðnám, hvað sem kann að gerast í framtíðinni og hlutirnir geta breyst hratt eins og við höfum séð á síðustu tveimur árum á orkumarkaði. Þessi tiltekna framkvæmd gefur okkur viðnám til þess að sækja fram með hagsmuni borgaranna að leiðarljósi. Hv. þingmaður hefur öllum mönnum verið snjallari í því að halda hér ræður um nauðsyn þess að tryggja ákveðnar frumþarfir borgaranna, hann hefur talað um vatn og það er að sjálfsögðu orka líka. Þetta tryggir það, hvað sem gerist, jafnvel þó að (Forseti hringir.) einkafjármagnið komist að þriðjungi inn, að þarna er aukinn meiri hluti til þess að verja þessar frumþarfir borgaranna