135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

innrás Ísraelsmanna á Gaza.

[15:08]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel að okkur beri siðferðileg skylda til þess að láta til okkar taka og frá okkur heyra á afgerandi hátt. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að grundvallaratriði við þessar aðstæður núna er að íslensk stjórnvöld, ríkisstjórn Íslands fyrir hönd okkar allra komi mjög eindregnum mótmælum og fordæmingu á framfæri við Ísraelsstjórn. Síðan finnst mér það að sjálfsögðu koma til álita að við íhugum þann kost að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Við verðum að hugleiða í alvöru hvað þarna er raunverulega að gerast, mjög stórfelld og alvarleg mannréttindabrot og brot á Genfarsáttmálanum. Það deilir enginn um það. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er það einnig óumdeilt.

Hæstv. forsætisráðherra bar á borð gamalkunna formúlu: Jú, ísraelsk stjórnvöld eru fordæmd en á það er minnt að Palestínumenn beri jafnþunga (Forseti hringir.) eða því er haldið fram að Palestínumenn beri í reynd jafnþunga sök. Átylla þess morðæðis sem gripið hefur Ísrael núna undanfarna daga er dauði eins Ísraelsmanns á fimmtugsaldri í Sderot, sem varð fyrir heimatilbúinni eldflaug, og var það fyrsta mannfallið af slíkum völdum þar í níu mánuði. (Forseti hringir.) Ég hafna því þessum málatilbúnaði og þessari afsökun ríkisstjórnarinnar til að skjóta sér undan ábyrgð að koma hörðum mótmælum á framfæri við þetta ofbeldi sem heimurinn er að verða vitni að.