135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

vandi landbúnaðarins og staða lífeyrissjóða.

[15:10]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Við setningu búnaðarþings í gær komu fram miklar áhyggjur af miklum verðhækkunum á aðföngum landbúnaðarins, bæði á fóðri, áburði og olíu og hækkandi vöxtum innan lands o.fl. Í Morgunblaðinu var skrifaður frábær leiðari, Kúabændur í vanda , þar sem rætt var um að bændur hafi verið í hópi framsæknustu stétta landsins á síðustu árum og menn vilja auðvitað að málin séu leyst. Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra að þetta mál verði leyst? Mun ríkisvaldið koma að málinu og þá hvernig eða verður þessum hækkunum velt út í verðlagið? Það er mjög mikilvægt að leysa þetta mál sem allra fyrst, bæði gagnvart bændum, neytendum og afurðastöðvum.

Svo ætla ég að minnast á annað mál. Fyrir helgi sat ég mjög áhugavert málþing um lífeyrissjóðamál hjá BSRB. Á ráðstefnunni staðfesti fulltrúi bankakerfisins að hlutur lífeyrissjóðanna í útrásinni hefði verið afgerandi. Mátti skilja það svo að útrásin hefði alls ekki átt sér stað án lífeyrissjóðanna. Þarna kom fram að íslensku lífeyrissjóðirnir eru að stærð og burðum öflugri með hliðsjón af fólksfjölda en sjálfur olíusjóður Norðmanna. Á ráðstefnunni komu fram vangaveltur um hvort unnt væri að nýta fjármuni lífeyrissjóðanna betur innan lands. Lífeyrissjóðirnir eru auðvitað sjálfstæðir eins og bankarnir og það ber að virða. Við framsóknarmenn höfum við núverandi aðstæður hvatt til þjóðarsáttar og mikils samráðs. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hefur hann íhugað að kalla lífeyrissjóðina að slíku samræðuborði með bönkum og atvinnulífi til þess að reyna að takast á við þann mikla efnahagsvanda sem við búum nú við á Íslandi og stefnir að okkur úr svo mörgum áttum?