135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[15:54]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða um um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað. Þetta er frekar spennandi mál að mínu mati og tengist breytingum sem við höfum verið að gera í þinginu núna líka fyrir jól, breytingar á ræðutíma þingmanna. Það er gaman að sjá hvað þetta mál er komið langt. Það er búið að ræða það talsvert. Það er enginn asi hér á neinni afgreiðslu. Ég tel að við séum búin að fjalla um þetta málefnalega í þinginu bæði fyrir jól og eftir jól. Hæstv. forseti þingsins hefur beitt sér fyrir þessu máli, viljað styrkja stöðu þingsins til að bæta líka starfsaðstöðu þingmanna og hefur sérstaklega horft þar til stjórnarandstöðunnar og núna í fyrsta kastinu til landsbyggðarþingmanna.

Það er nú þannig, virðulegur forseti, að í þinginu eru 63 þingmenn, 43 koma frá stjórnarflokkum og 20 frá stjórnarandstöðu. Þetta er mjög mikill munur þar sem stjórnarþingmenn eru með meira en tvo þriðju hluta hér í þinginu og því er eðlilegt að styrkja almennt starfsaðstöðu þingmanna og horfa líka til stjórnarandstöðunnar í þessu sambandi. Ég tel því að forseti þingsins hafi beitt sér skynsamlega í þessu máli í samstarfi við forsætisnefnd þingsins og í samstarfi við þingflokksformenn. Við erum að sjá fyrir endann á þessu átaki í bili þó að við vitum að það kemur meira í kjölfarið. Það á eftir að skoða nefndastarfið enn betur og allir eru sammála um að það eigi að gera.

Virðulegur forseti. Ég tel að frekar góð sátt ríki í samfélaginu um þessar breytingar eða alla vega skynja ég það þó maður hafi ekki gert neina sérstaka könnun á því. En miðað við umræðuna fyrir jól þá tel ég að almenningur hafi almennt talið það vera til bóta eins og þingið gerði líka að stytta ræðutíma þingmanna. Maður fann fyrir því umræðunni fyrir jól að því var almennt frekar vel tekið í samfélaginu. Það hefur ríkt skilningur á því. Ég tel líka að það ríki ákveðinn skilningur á því að það geti styrkt lýðræðið á Íslandi að þingmenn fái meiri aðstoð í sínum störfum. Ég skynja það þannig, virðulegur forseti, að almennt séð sé skilningur á þessum breytingum í samfélaginu.

Frumvarpið sem við erum að fjalla um er tvær greinar. Frumvarpið er ekki mikið að vöxtum en það er mikilvægt og textinn er almennur, þ.e. kveðið er með almennum orðum á um að alþingismanni er heimilt að ráða sér aðstoðarmann og svo framvegis og að forsætisnefnd setji reglur um hvernig sé staðið að því. Þótt textinn sé almennur þá vitum við að í fyrsta kastinu snúa breytingarnar aðallega að tveimur hópum hérna inni, þ.e. að formönnum stjórnarandstöðuflokkanna sem munu fá svigrúm til að ráða sér aðstoðarmenn og svo snýr þetta líka að þingmönnum landsbyggðarinnar sem munu frá svigrúm til að ráða sér aðstoðarmenn. Þetta er ekki sérstaklega tilgreint með þessum hætti í lagagreininni heldur byggist þessi skilningur á þeim fjárlögum sem við höfum samþykkt eða meiri hlutinn samþykkti fyrir jól. Svigrúmið er eitthvað í kringum 75 millj. kr. og það dugir fyrir þessu, fyrir aðstoðarmönnum fyrir stjórnarandstöðuflokkana og fyrir aðstoðarmönnum handa landsbyggðarþingmönnum. Þegar þetta nýja fyrirkomulag mun ná til allra þingmanna þarf ekki að breyta lagatextanum af því hann er almenns eðlis. Þá verður hægt að taka inn alla þingmenn án lagabreytinga. Þá munu bara reglurnar sem forsætisnefnd setur breytast fyrir utan það að þá munu fjárveitingar hækka.

Miðað við þær upplýsingar sem ég hef kostar núverandi fyrirkomulag sem við erum að fara inn í á næstu dögum í kringum 75 milljónir króna. En nái kerfið líka yfir þingmenn höfuðborgarsvæðisins mundu bætast við í kringum 50 milljónir króna. Það er innan við tvöföldun á því fjármagni sem áætlað er í þetta fyrirkomulag á þessu ári.

Ég hef ekki tekið undir það, virðulegi forseti, að við séum að afgreiða þetta mál hérna með hraði og tek undir með þeim sem hafa sagt að við höfum rætt það hér í talsverðan tíma. Það er að mínu mati hið rétta. Við erum með ákveðnar prinsippákvarðanir í þessu máli, þ.e. að ráða aðstoðarmenn og þeir nái til tiltekinna þingmanna í fyrsta kastinu. Það er alveg ljóst að fyrirkomulagið sem við erum að fara inn í mun örugglega taka breytingum. Menn munu fikra sig áfram með þetta mál. Það þarf að ganga í gegnum barnasjúkdóma, ef svo má að orði komast, í upphafi og við þurfum örugglega að breyta fyrirkomulaginu eitthvað í framtíðinni.

Menn hafa rætt um hvernig ætti að halda á svona aðstoðarmannakerfi. Sumir hafa fært ágætisrök fyrir því að aðstoðarmennirnir eigi að vera meira eða minna tengdir þingflokkunum. Aðrir hafa fært ágætisrök fyrir því að aðstoðarmennirnir eigi að meira tengdir skrifstofum stjórnmálaflokkanna. En það sem við erum að stefna inn í hér er að aðstoðarmennirnir séu sérstakir aðstoðarmenn þingmanna, einstaklinganna, þ.e. þingmannanna sjálfra og að þingmennirnir hafi svokallað húsbóndavald þannig að aðstoðarmennirnir eru að vinna fyrir þingmanninn sem ræður hann til starfsins þó að þingið haldi svo utan um alla umsýsluna með ráðningarsamningunum.

Þetta fyrirkomulag leiðir hugann að ýmsu eins og því að það má alveg sjá fyrir sér að einhverjir aðstoðarmenn gætu farið í framboð gegn sínum þingmanni sem þeir vinna fyrir. Það er ekkert ólíklegt að það komi upp nema menn geri einhvers konar samning um að það verði ekki gert sem ég veit nú ekki hvort þingmenn muni almennt gera. Við höfum svo sem fordæmi fyrir því að aðstoðarmenn ráðherra hafi farið í framboð gegn sínum ráðherra. Það er mjög óvenjulegt en til eru dæmi þess. Eitt atriði sem menn hafa svolítið velt fyrir sér er líka það hvernig aðstoðarmönnum verði beitt innan flokka, af því þeir eru svona tengdir við þingmanninn sinn að þá leiði það svolítið hugann að þeim flokkum þar sem menn gera upp uppröðun flokka sinna í gegnum prófkjör og hvernig aðstoðarmennirnir blandist hugsanlega inn í það. Það er allt of snemmt að segja til um það hvernig það verður. Menn verða bara að reyna að halda á því eins skynsamlega og þeir geta. En það er alveg hægt að færa rök fyrir því að þetta kerfi verði svolítið til þess að verja sitjandi þingmenn af því þeir fá þá meiri kraft til að beita sér í sínum kjördæmum. Það er bara hin hliðin á sama peningi en aðalrökin eru þau að við erum að styrkja lýðræðið og við erum að styrkja þingmennina í sínum störfum fyrir þjóðina og almenning.

Virðulegi forseti. Ég tel mjög erfitt að skilgreina hlutverk þessara aðstoðarmanna. Ég held að það sé mjög erfitt. Það er svolítið búið að kalla eftir því. En þingmenn hafa mjög mismunandi þarfir. Í nefndinni kom fram að einhverjir munu þurfa aðstoð við heimasíðugerð meðan aðrir þurfa ekki á því að halda og svo framvegis. Þetta verður bara reynslan að sýna.

Það hafa komið rök fram hér og meðal annars hjá síðasta hv. ræðumanni um að hugsanlega væri verið að brjóta gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ég vil vekja athygli á því í því sambandi að í minnihlutaáliti hv. þm. Jóns Magnússonar er ekki tekið neitt sterkt til orða en þar er því komið á framfæri að vafi leiki á því að frumvarpið standist jafnræðisreglu íslenskra stjórnskipunarlaga og í ræðu hv. þingmanns kom fram að það væri spurning um hvort þetta bryti í bága við jafnræðisregluna. Ég heyri að hv. þingmaður vill stíga frekar varkárt til jarðar í þessu enda ákváðum við í nefndinni að taka tillit til þessarar gagnrýni sem kom fram um jafnræðið. Til að taka af allan vafa í því sambandi, alla vega að mati meiri hluta nefndarinnar, er sett í greinina samkvæmt breytingartillögu sérstakt ákvæði um að í reglum forsætisnefndar megi kveða á um að þessi heimild sé bundin tilteknum kjördæmum eða tiltekinni stöðu sem alþingismaður hefur í flokki sínum. Þarna er vísað til þess að forsætisnefndin hefur svigrúm til að tiltaka ákveðið kjördæmi eða stöðu þingmannsins í flokki. Og þá er verið að leiða hugann að formönnum stjórnarandstöðuflokkanna. Virðulegi forseti. Ég tel því að málið standist jafnræði hvað þetta varðar.

Við athuguðum líka í nefndinni hvernig staðið er að svona aðstoðarmannakerfi annars staðar á Norðurlöndunum. Við fengum yfirlit yfir það og það var kallað eftir upplýsingum frá þjóðþingum hinna Norðurlandanna og við fengum ágætisupplýsingar að ég tel um það. Það kom í ljós að á öllum Norðurlöndunum er svona aðstoðarmannafyrirkomulag ríkjandi, að vísu ekki alveg eins og við erum að stefna í hér. Þar er það tengdara þingflokkunum og skrifstofum stjórnmálaflokkanna en við erum að fara inn í hér. Við erum með þetta alfarið tengt þingmönnunum sjálfum. Það var líka eitt sem mér fannst athyglisvert sem kom fram í skoðun allsherjarnefndar á þessu máli. Það var að á öllum hinum Norðurlöndunum voru aðstoðarmennirnir á vettvangi í höfuðborgunum þar sem þingin eru starfandi. Þeir voru sem sagt ekki í kjördæmunum. En við erum að stefna að því að okkar aðstoðarmenn séu í kjördæmi viðkomandi þingmanna. Það er annars eðlis. Þó það standi ekki í lagagreininni að það sé skylda beint þá er það í greinargerðinni. Mér finnst líklegt að alla vega fyrsta kastið verði þessir aðstoðarmenn í kjördæmunum. Þannig var þetta hugsað í upphafi þó það kunni að breytast og þeir færi sig eitthvað á milli.

Það er athyglisvert að ekki hafa allir þingmenn á Norðurlöndunum aðstoðarmenn. Það er af því að sumir þingmenn þar eru það mikið í erlendum samskiptum að þeir telja sig ekki þurfa aðstoðarmenn í sínu þjóðþingi. Það er mjög athyglisvert. Þá treysta þeir meira á sínar flokksskrifstofur og á þingflokkana. En langflestir hafa aðstoðarmenn.

Það er líka athyglisvert, virðulegur forseti, að skoða hvaða stuðning stjórnmálaflokkarnir á hinum Norðurlöndunum fá af opinberu fé af því hér hefur það stundum verið til umræðu. Mig langar að nefna nokkrar lykiltölur í því sambandi, virðulegur forseti. Á Íslandi fáum við á hvern þingmann 4,9 millj. kr. í stuðningi af opinberu fé til stjórnmálaflokkanna. Í Danmörku er þessi tala 6,6 milljónir á hvern þingmann, í Svíþjóð 9,8 milljónir á hvern þingmann, í Finnlandi 11,4 milljónir á hvern þingmann og í Noregi 28,3 milljónir á hvern þingmann. Norðmenn eru að greiða langhæst miðað við framlög af opinberu fé á þingmann. Það er alltaf gaman að leika sér að tölum af því að maður getur líka fært rök fyrir því að við erum að fá hlutfallslega meira af því við erum færri íbúar í landi. En ég tel að þessar tölur geti þó sýnt okkur að af því við ætlum okkur að halda hér og höldum uppi sjálfstæðu ríki og erum með eigið þjóðþing þá þurfum við að hafa ákveðinn tilkostnað af því og sinna því með sóma. Þá erum við að mínu mati að fá í framlögum á hvern þingmann mjög lága tölu miðað við þetta. Að mínu mati er ekki hægt að segja að við séum að styrkja stjórnmálaflokkana mikið með opinberu fé á Íslandi.

Í reglunum hjá okkur er tekið fram að ekki megi ráða maka til aðstoðar eða nána ættingja. Ég get komið því hér á framfæri við það tilefni að í Evrópuþinginu eru flestir þingmenn með nokkra aðstoðarmenn, kannski tvo, þrjá, jafnvel fjóra og þar ráða þeir nána ættingja. Ég get til dæmis bent á þingmann á Evrópuþinginu sem hefur haft mjög mikil samskipti við Ísland og hefur verið í forustu þingnefndar þar sem hefur sinnt Íslandi. Maki hennar er hennar aðstoðarmaður. Reyndar er hún með fleiri aðstoðarmenn. Þar er það talið sjálfsagt. Það er svona dálítið misjafnt hvernig löndin hafa þetta.

Það var rætt í nefndinni um álag og það var líka komið inn á það í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar hér um daginn þegar við ræddum þetta mál, álag á aðstoðarmenn. Eins og við göngum frá þessu er alveg ljóst að greiðslurnar til aðstoðarmanna verða jafnar, þ.e. ákveðin mánaðargreiðsla. En svo er það samkomulag milli þingmanns og aðstoðarmanns hvernig þunganum er skipt á milli mánaða í störfum. Það er til dæmis hægt að hafa það þannig að á sumrin verði minna álag á aðstoðarmanni þó hann fái jöfnu greiðslurnar og svo er þá meira álag á veturna. Það er allt opið í því.

Mig langar líka að koma því að framfæri að ég tel mjög líklegt að starfskostnaðurinn sem við gerum ráð fyrir hækki. Ég tel að of lágar upphæðir séu settar í starfskostnaðinn, ferðakostnað innan lands, símkostnað og annað. Einhvers staðar þarf að byrja þannig að við byrjum með þessa tölu sem við höfum verið að vinna með í fjárlögunum en ég tel að þetta þurfi að hækka af því það getur varla verið svo að viðkomandi aðstoðarmaður eigi bara að sitja á einni skrifstofu og ekkert geta hreyft sig nánast neitt frá henni.

Í allsherjarnefnd urðu svolítið skemmtilegar umræður um muninn á álagi og vinnu þingmanna í landsbyggðarkjördæmum og á höfuðborgarsvæðinu. Það er þannig, virðulegur forseti, að álagið á þingmönnum á landsbyggðinni er afar mikið. Það er mikil krafa um að þeir séu stöðugt á ferðinni í sínum kjördæmum og hafi samband við fjölmarga sveitarstjórnarmenn, alls kyns félagasamtök, fyrirtæki og svo framvegis, mjög mikil krafa og að mínu mati ansi óréttmæt á margan hátt af því að þingmenn geta ekkert komist yfir þessi stóru kjördæmi landfræðilega séð ásamt því að sinna vel starfi sínu í þinginu. Þetta er mjög mikil krafa og maður skilur líka kjósendur að vilja hitta sína þingmenn sem þeir telja og vita að eru að vinna fyrir sig. Þetta er mjög mikil krafa þannig að maður styður það að þingmenn landsbyggðarinnar fái aðstoðarmenn.

Á sama tíma vil ég halda því til haga að það er líka mjög mikið álag á höfuðborgarsvæðinu. Það var nefnt hér í ræðu hv. þm. Jóns Magnússonar um daginn að kjósendur í Suðvesturkjördæmi eru fleiri en kjósendur í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi til samans, ef ég vitna nokkurn veginn beint í hv. þingmann. Það þarf að sinna svona miklum fjölda líka. Það er bara gert með öðrum hætti. Við þingmenn á höfuðborgarsvæðinu erum ekki að keyra eins mikið um í okkar kjördæmi og það er ekki eins stórt. En það þarf að sinna þessum fjölda og á ógrynni funda þurfa þingmenn á höfuðborgarsvæðinu að mæta til þess að ná að halda sambandi við eins marga og hægt er.

Það er líka að vissu leyti meira fjölmiðlaaðgengi að höfuðborgarþingmönnum hér um helgar þegar þeir eru á vettvangi þar sem meðal annars sjónvarpsþættir eru teknir upp. Það er að einhverju leyti meira fjölmiðlaaðgengi að þeim þó það sé ekki mjög mikið. Ég tel að það verði að koma sama fyrirkomulag fyrir þingmenn höfuðborgarsvæðisins og það er sérstaklega tilgreint í greinargerðinni eða nefndarálitinu, vildi ég sagt hafa virðulegur forseti. Þar er alveg sérstaklega tilgreint að næst eigi að taka fyrir hér í fjárlagagerðinni aðstöðu þingmanna á höfuðborgarsvæðinu þannig að þegar það er búið þá verði sama fyrirkomulag komið á fyrir alla þingmenn landsins og fulls jafnræðis gætt í því.

Ég vil ljúka minni ræðu, virðulegi forseti, á því að segja að ég tel að þetta sé mjög gott skref og brýnt að taka það. En á sama hátt tel ég að við þurfum að líta til þingmanna höfuðborgarsvæðisins í framhaldinu. Svo þurfum við líka að klára að styrkja nefndastarfið sem er mikill vilji til að gera hjá öllum þingflokkum.