135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[16:44]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær hafa komið fram í ræðunni. Ég fór yfir það, breytingarnar sem urðu á kjördæmaskipaninni og hvað þær leiddu af sér fyrir starfsaðstöðu þingmanna í dreifbýliskjördæmunum. Þeir þurfa að verja meiri tíma en áður til ferðalaga. Þeir þurfa að fara á fleiri staði en áður til þess að sinna sínu starfi, hvort sem það er að sækja ráðstefnu eða halda sjálfir fundi og tíminn sem fer í þetta er tekinn frá öðrum störfum og þess vegna þurfa menn aðstoðarmenn til þess að bæta sér það upp. Þingmaður sem áður var þingmaður í Norðurlandi vestra er nú þingmaður fyrir þrjú kjördæmi sem áður voru, Norðurland vestra, Vestfirði og Vesturland. Það eru yfir 20 þéttbýlisstaðir á þessu svæði. Þingmaður sem ætlar að sinna sínum kjósendum með einhverjum hætti þarf að fara á alla þessa staði. Þingmaður í Reykjavík norður heldur bara einn fund. Þá er hann búinn að gefa öllum sínum kjósendum kost á að koma þannig að það eru bara ólíkar aðstæður og það eru málefnalegar aðstæður, virðulegi forseti.

Allir þeir sem hafa komið að þessu máli á forstigum þess, hvort sem var í nefnd Friðriks Sophussonar eða nefnd Einars K. Guðfinnssonar eða fyrrverandi formenn stjórnmálaflokkanna sem þá voru á vettvangi, hafa allir samþykkt þetta mál, staðið að því og mælt fyrir því þannig að mér finnst það vera nokkuð sterk rök þegar þeir telja að þetta — ja, með því hljóta þeir að telja að þetta standist ákvæði stjórnarskrár eins og það sem hv. þingmaður er hér að velta upp.