135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[16:54]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þingmaðurinn verður náttúrlega að hlusta á það sem sagt er. Ég sagði ekki orð um að ég styddi ekki þetta frumvarp. Ég sagði ekki orð um það að mér þætti ekki mikilvægt að bæta aðstöðu þingmanna, ekki orð.

Það sem ég var að segja er að sú breyting sem allsherjarnefndin leggur til, þ.e. ég tel að hún setji ekki undir lekann sem kemur fram meðal annars frá þingmanni Frjálslynda flokksins, Jóni Magnússyni, að þetta ákvæði standist ekki jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar. Það er það sem ég er að segja. Ég tel að sú breytingartillaga setji ekki undir þann leka, þvert á móti, hún bíti höfuðið af skömminni. Það breytir engu um það að ég (Gripið fram í.) tel að sjálfsögðu að það þurfi að bæta aðstæður þingmanna almennt séð og þess vegna er engin mótsögn í því sem ég var að segja hér áðan og því sem segir í okkar greinargerð og birt er í nefndarálitinu sem þingmaðurinn vísaði til, ekkert.

Ég vil hins vegar segja líka að mér finnst þetta vera kannski aðeins umhugsunaratriði hvort kjördæmaskipunin sem slík sé ekki bara alveg ómöguleg og hvort þessi stóru víðfeðmu kjördæmi séu ekki í raun algjör tímaskekkja. Það er fullt tilefni og ástæða til þess að taka aðeins á því. Eins er skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi. Ég er þeirrar skoðunar að hún sé algjört rugl. Það breytir ekki því að þingmenn þurfa að sjálfsögðu að hafa góðan aðbúnað til að sinna sínum störfum óháð því hvort þeir hafa um langan veg að fara til að sinna sínum kjósendum eða hvort það er mikill fjöldi og þarf að ná til þeirra með öðrum hætti eins og á væntanlega við í ríkara mæli hér á þessu svæði en vítt og breitt um landið.

Ég segi bara, virðulegur forseti: Það er fyrst og fremst þetta sem ég er að gagnrýna, ekki það að menn séu að reyna að bæta aðstöðu þingmanna sem mér finnst fullkomlega eðlilegt. Það má gera það með ýmsum hætti. Ég er ekki sannfærður um að þetta sé eina og besta leiðin. Til dæmis það að binda störf aðstoðarmanna úti í kjördæmum þar sem þeir mega ráða í þriðjungs starf, það er auðvitað engin mynd á því og ef þingmenn í tveimur landsbyggðarkjördæmum mundu vilja taka sig saman og ráða aðstoðarmann mega þeir það ekki.