135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[18:10]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hygg nú að fram hafi komið merkilegar yfirlýsingar í þessari ræðu hv. þm. Sturlu Böðvarssonar sem hér talaði auðvitað sem þingmaður og á þess vegna að kalla háttvirtan. Hann gegnir þó hinu virðulega embætti forseta þingsins öllu jöfnu.

Vegna þess að þingmaðurinn gerir það þá er mjög mikilvægt að vita glöggar en hér hefur komið fram hvernig háttar stuðningi hans við það nefndarálit sem hér kemur fram og þær breytingartillögur sem hér hafa verið fluttar. Í nefndarálitinu stendur, eins og hér hefur verið sagt og ég þarf varla að biðja um leyfi forseta til að lesa það:

„Meiri hlutinn telur að sterk rök hnígi í þá átt að útvíkka þetta fyrirkomulag frekar, meðal annars þannig að aukin aðstoð nái til allra þingmanna. Meiri hlutinn leggur áherslu á að forsætisnefnd hugi þegar að breytingum í þá veru svo sem með tilliti til fjárlagavinnu fyrir næsta ár.“

Forsætisnefnd hefur þá sérstöðu hér í þinginu að þar er ekki sérstakur meiri hluti stjórnarsinna og minni hluti stjórnarandstæðinga heldur myndar forseti þingsins í raun og veru meiri hluta forsætisnefndar, sífelldan meiri hluta. Verði ágreiningur í nefndinni sker forsetinn úr, stendur í 10. gr. þingskapalaga.

Þess vegna skiptir það verulegu máli hvort forsetinn tekur undir þá skoðun hv. þm. Ellerts B. Schrams og Sivjar Friðleifsdóttur sem má einnig skilja á hv. þm. Birgi Ármannssyni — ég minni á fyrirvara sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur við þetta nefndarálit sem hefur að vísu ekki komið fram — að endapunkturinn í þessu og það sem forsætisnefndin eigi að fara að huga að sé jafnræði þingmanna og kjördæma og kjósenda að þessu leyti.

Ég veit ekki hvort ég verð hér á þinginu þegar sú atkvæðagreiðsla fer fram sem bindur enda á þessa umræðu en ég tel mikilvægt fyrir þingmenn að vita hvað forseti hyggur í þessu efni og hvernig hann (Forseti hringir.) skilur greinina sem hér um ræðir.