135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[18:24]
Hlusta

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nauðsynlegt að taka upp allar akademískar spurningar sem fyrir finnast í þessu. Þessi er slík og út af fyrir sig er ekkert ómögulegt að þingflokkur sé til án þess að þar sé einhver sérstakur formaður. En ég tel það afskaplega ólíklegt.

Við gerum ráð fyrir að í þessu kerfi séu styrkir til stjórnmálaflokka sem hafa þingflokk á Alþingi, eftir þeim reglum sem gilda um þingflokka, til að þeir geti ráðið sér aðstoðarmann. Fyrirkomulagið getur út af fyrir sig verið með ýmsum hætti, þ.e. hvernig stjórnmálaflokkar velja að hafa foringja í sínum röðum. Þeir geta verið tveir en þeir fengju aðeins einn aðstoðarmann. Ég held að þetta sé afskaplega langsótt og ólíklegt og ætla rétt að vona að jafnan verði það þannig að stjórnmálaflokkarnir hafi einn skipstjóra á skútunni þannig að við þurfum ekki að standa frammi fyrir því að ekki sé við neinn að tala þegar á að ræða við forustumenn flokks. Ég tel að þetta sé út af fyrir sig ekki raunhæf spurning en ég tel hins vegar að stjórnmálaflokkur sem hefur þingflokki á að skipa eigi möguleika á þessu.

Að öðru leyti tel ég rétt að þetta mál verði skoðað í framtíðinni þegar við tökum næstu skref.