135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

staða efnahags-, atvinnu- og kjaramála.

[14:47]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Óróleikinn á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefur gert vart við sig svo um munar í íslensku efnahagslífi og kemur til á sama tíma og við freistum þess að ná stöðugleika og jafnvægi í efnahagslífinu eftir áralangt tímabil þenslu sem margar ástæður liggja að baki.

Nú er stóra verkefnið hins vegar að endurheimta jafnvægið í peningamálum, ná niður verðbólgu, endurheimta stöðugleika og styðja við fjármálakerfið þannig að það komist áfallalítið út úr tímabundnum þrengingum. Þar skipta að sjálfsögðu nýgerðir kjarasamningar sköpum og munu standa í bakgrunni þess að okkur takist að ná hér betra jafnvægi og að það skapist forsendur fyrir því að vaxtalækkunarferli stýrivaxta geti hafist.

Það er óhætt að segja að ástandið á alþjóðlegum og íslenskum fjármálamörkuðum undanfarna mánuði hefur verið erfitt og lækkanir á hlutabréfamörkuðum munu væntanlega setja mark sitt á afkomu bankanna og efnahagslífið allt og við slíkar aðstæður er mikilvægt að halda ró sinni og greina tímabundna erfiðleika frá langtímavandamálum og algjörlega ástæðulaust að tala upp óttann og bankana niður.

Um mitt síðasta ár fór að halla undan fæti á fjármálamörkuðum um allan heim. Aðdragandinn hefur að stórum hluta verið rakinn til svokallaðrar undirmálskrísu sem á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna. Fjármálakerfi okkar er tengt órjúfanlegum böndum við hinn alþjóðlega fjármálaheim og því óumflýjanlegt að áhrifanna mundi gæta hér að verulegu leyti.

Ef litið er á þróun hlutabréfaverðs skera fjármálafyrirtæki okkar sig þó ekki mjög úr í alþjóðlegum samanburði og frá ársbyrjun og til loka febrúarmánaðar hafa hlutabréf í stóru íslensku bönkunum lækkað um 15–20% á sama tíma og hlutabréf annarra norrænna banka hafa lækkað á bilinu 5 og upp í 15%. Munurinn skýrist að hluta af því að gengi íslensku bankanna hafði vaxið óvenjumikið á fyrri hluta síðasta árs þar sem það náði hæðum í júlí 2007.

Þrátt fyrir þessar hræringar hefur afkoma stóru íslensku bankanna verið býsna góð að undanförnu og til að mynda var hagnaður fyrir skatta af reglulegri starfsemi um 15–17% af eigin eign árið 2007. Lausafjárstaða íslensku bankanna er sem betur fer miklum mun sterkari núna en hún var árið 2006 þegar þáverandi fjármálakrísa reið yfir enda hafa þeir allir gert víðtækar ráðstafanir til að lengja í lánum, dreifa gjalddögum lána á lengri tímabil og uppsprettu lausafjár eftir löndum. Allir hafa þeir einnig ráðist í stórátak við að afla innlána á erlendum vettvangi sem dreifir fjármögnunaráhættu þeirra mjög verulega. Því eru þeir miklu betur í stakk búnir en nokkru sinni fyrr til að standa af sér áföll og þrengingar. Eiginfjárstaða þeirra hefur verið sterk undanfarin missiri og var á bilinu 11 og 12% við árslok árið 2007.

Þetta er einnig betri staða en almennt er hjá norrænu bönkunum og eiginfjárstaðan hefur einnig staðist vel þau álagspróf sem Fjármálaeftirlitið hefur framkvæmt að undanförnu þar sem gert er ráð fyrir harkalegum skellum, hlutabréfaverði, genginu, vaxtakjörum og útlánatöpum, allt í einu. Við þessar aðstæður hafa Fjármálaeftirlit og Seðlabanki mjög mikilvægu hlutverki að gegna og Fjármálaeftirlitið hefur að undanförnu lagt sérstakar áherslu á að greina útlánaáhættuna í bankakerfinu.

En hátt skuldatryggingarálag íslensku bankanna er hins vegar mikið áhyggjuefni og það er birtingarmynd þess hversu óhagstæð kjör bjóðast þeim á alþjóðlegum lánamörkuðum þessar vikurnar. Viðvarandi ástand af þessu tagi hefur auðvitað lamandi áhrif á fjármálakerfið því bankarnir halda að sér höndum gagnvart útlánum til bæði einstaklinga og fyrirtækja.

Í morgun bárust hins vegar fregnir að því að Kaupþing banki hefði lokið við nokkrar skuldabréfasölur að fjárhæð um 110 milljarða kr. til fjárfestinga í Bandaríkjunum og Evrópu á kjörum sem eru talsvert lægri en núverandi skuldatryggingarálag bankans á markaði. Til dæmis um það þá lækkaði álag á bankann við þetta að því er virðist um 70–80 punkta og það eru afskaplega ánægjulegar fréttir og undirstrikar að mínu mati betur en flest annað að skuldatryggingarálag íslensku bankanna er í engu samhengi við raunverulega stöðu bankanna. En það blasir við að það þarf átak og það er engin ástæða til að gera lítið úr því til að rétta við þá mynd sem er dregin upp af íslensku fjármálakerfi í erlendum miðlum og íslensk stjórnvöld munu koma að því verkefni að kynna raunverulega stöðu fjármálakerfisins og efnahagsmálanna erlendis eins og forsætisráðherra hefur ítrekað kynnt að undanförnu.

En fyrir skemmstu setti matsfyrirtækið Moody's fram þá skoðun í nýlegri skýrslu að lánshæfismat íslenska ríkisins stæði á krossgötum og þeirri spurningu var varpað fram hvort að svigrúm til frekari vaxta fjármálageirans innan þessa fyrirkomulags peningamála sem við núna búum við færi minnkandi. Þessi skoðun hefur að einhverju leyti endurspeglast í mikilli umfjöllun erlendis um íslenskan fjármálamarkað og hér er um að ræða raunverulegan vanda sem bæði stjórnvöld og fyrirtækin verða að kappkosta að leysa.

Það er engum blöðum um það að fletta að íslensku bankarnir hafa farið mikinn á undanförnum árum og stækkað ört á erlendum vettvangi með aukinni skuldsetningu en um leið með gríðarlegri eignamyndun. Nú þegar aðstæður á lánamörkuðum hafa breyst til hins verra þá er nauðsynlegt að bankarnir breyti um takt og það eru þeir að gera, lagi sig að breyttu ástandi og leiti tækifæra til aukinnar hagræðingar. Á sama tíma leita stjórnvöld allra leiða til að styrkja undirstöður og viðbragðshæfni hagkerfisins og til skemmri tíma litið er okkar stærsta verkefni að byggja upp trúverðugleika fjármálakerfisins og fjármálastöðugleikann. Það getum við til að mynda gert með því að halda áfram á þeirri mörkuðu braut að styrkja gjaldeyrisforðann frá því sem núna er og endurskoða lausafjárreglur bankanna með varúðarsjónarmiðin í öndvegi.

Það verður hins vegar ekki gert með því að yfirgefa núgildandi markmið í peningamálum því verðbólgustöðugleiki og fjármálastöðugleiki tengjast að sjálfsögðu órjúfanlegum böndum. Um leið og við horfum til lengri tíma og tökum af fullum heilindum og ábyrgð til umfjöllunar þá framtíðarskipan sem við viljum búa við í efnahagslífi okkar og í peninga- og gjaldmiðilsmálum. En meginmálið er að takast á við það af festu, við ytri áföll á borð við kvótaniðurskurð, hækkanir á hrávöru og matvælum á heimsmarkaði með ýmsu móti og margvíslegum mótvægisaðgerðum eins og kynntar hafa verið að hluta til á undanförnum mánuðum.

Um leið þurfum við að sjálfsögðu að endurheimta jafnvægi og skapa skilyrði fyrir það að vaxtalækkunarferlið geti hafist án þess að verðbólga aukist og gengi krónunnar falli bratt. Þau skilyrði skapast ekki fyrr en verðbólgan gengur niður og vaxtaverkir þenslunnar fjara út úr hagkerfi sem hitnaði vel yfir mörkin á tímabili. En það eru allar forsendur fyrir því að okkur takist að lenda þessu með farsælum hætti og sigla út úr tímabundnum þrengingum bæði heima og heiman.

Hvað varðar bollaleggingar og umræðu eins og formaður Framsóknarflokksins nefndi hér um einhliða upptöku á öðrum gjaldmiðlum þá er mjög ánægjulegt að sú umræða er frá, eins og skýrt kom fram í ferð hæstv. forsætisráðherra til Brussel í síðustu viku. Framtíðarkostirnir eru bara tveir: Það er núverandi ástand sem við þurfum að laga og ná jafnvægi og hin leiðin væri formleg aðild að myntbandalagi. Þetta eru málefni framtíðarinnar en ekki lausn á núverandi þrengingum og það er mjög ánægjulegt að sá krókur sem var í þessari umræðu um einhliða upptöku sem allsherjarlausn á tímabundnum vanda er frá af því að kostirnir eru bara tveir og núna er verkefnið að ná stöðugleika, endurheimta (Forseti hringir.) jafnvægið og ná verðbólgunni niður og sigla fjármálakerfinu okkar út úr tímabundnum þrengingum.