135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

staða efnahags-, atvinnu- og kjaramála.

[15:45]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil taka það fram að ég sá ekki ástæðu til að ræða hér sérstaklega um kjarasamninga því að það höfum við þegar gert á þinginu á grundvelli yfirlýsingar frá hæstv. forsætisráðherra sjálfum og afstaða okkar til þessara samninga hefur komið skýrt fram. Það er líka rétt að hafa í huga að í þessum samningum er endurskoðunarákvæði sem einfaldlega er þannig að náist verðbólga ekki niður á næstu mánuðum eru þeir lausir að ári. Þannig að lækki ekki verðbólgan á allra næstu mánuðum hverfur sú kjölfesta sem kjarasamningar á almennum vinnumarkaði annars vissulega gætu orðið auk þess sem rétt er að hafa í huga að það er ósamið við opinbera starfsmenn.

Hv. þingmenn Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson, tvístirnið nýja í Sjálfstæðisflokknum, fluttu hér ágætar ræður. Þeir hv. þingmenn virðast leggja mun raunsærra mat á stöðu mála en hæstv. forsætisráðherra. Það vakti að vísu athygli mína að í myndlíkingamáli sínu var hv. þm. Bjarni Benediktsson fyrst á seglskipi sem ýmist þurfti að rifa seglin eða hífa þau upp en var svo skömmu seinna kominn á mótorbát þar sem þurfti að kæla vélina án þess þó að hún mætti frjósa föst. En látum það nú einu gilda.

Það leyndi sér ekki að hæstv. forsætisráðherra var illa við það að farið væri í sögulega upprifjun og vitnað í tölur og staðreyndir um það hvernig hagstærðir okkar hafa þróast á valdatíma Sjálfstæðisflokksins. Auðvitað er það viðkvæmt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins skuli hafa farið úr 35 af hundraði af landsframleiðslu og upp í 220%. Auðvitað vill hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde ekki að það sé rifjað upp. En það er öllu verra ef það er virkilega svo að hæstv. forsætisráðherra meini það að hann láti sér algjörlega í léttu rúmi liggja það sem liðið er af því að það hefur verið ákveðið hér á Alþingi með tilskildum meiri hluta. Það bendir ekki til þess að menn ætli sér að stunda hóflega sjálfsgagnrýni og reyna að læra af mistökunum, sérstaklega að forðast að endurtaka þau. Og þess vegna er það ekki sérstakt fagnaðarefni að hæstv. forsætisráðherra virðist enn vera við sama heygarðshornið og trúa á það að álver geti orðið lausn allra okkar vandamála. Það var að vísu athyglisvert að þegar að því var spurt brá hæstv. forsætisráðherra sér allt í einu í sinn persónulega ham og sagði: Ég er þeirrar skoðunar að það væri gott að fá álver inn í hagkerfið núna en kom sér hjá því að ræða um stöðu mála í ríkisstjórn sem þó var um spurt hver hin formlega staða væri.

Hafa menn ekkert lært af ruðningsáhrifunum? Af verðbólgunni? Af þenslunni sem við erum núna að glíma við og ég þóttist fara sæmilega yfir hér hvernig þetta hefði rakið sig í tímaröð og í formi sögulegra atburða og ákvarðana? Og ætli það sé nú ekki þannig að þjóðin átti sig á því hvaðan herkostnaðurinn er kominn sem hún ber nú á herðunum í formi verðbólgu, okurvaxta og stórkostlegrar hættu á skertum kjörum svo ekki bætist nú við atvinnuleysi? Ég fagna því að hæstv. ríkisstjórn opnar að minnsta kosti á þann möguleika að efla gjaldeyrisvaraforðann ef aðstæður verða til en mér finnst það undarlegt að enn skuli staðan vera sú að engar viðræður séu í gangi milli ríkisstjórnar og Seðlabanka og engar ákvarðanir hafi verið teknar um að þær hefjist. Er það sem sagt þannig enn þá að ríkisstjórnin og Seðlabankinn eru ekki „på talefod“ eins og danskurinn segir. Það þarf þá ekki að þýða það í Danmörku ef Danir skyldu vera að fylgjast með efnahagsumræðunum hér. Þeir vita það þá bara beint héðan úr ræðustólnum að ríkisstjórnin á Íslandi og Seðlabankinn eru ekki „på talefod“. Mér finnst það dapurlegt að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki geta gefið okkur einhverja innsýn í að ríkisstjórnin sé að taka af meiri alvöru, ábyrgð og festu á þessum hlutum. Ég les út úr þessu mjög veik og fálmkennd viðbrögð ef viðbrögð skyldi kalla, í raun og veru ráðleysi.

Hæstv. ríkisstjórn verður að gera betur. Ímyndarherferð á erlendri grund mun ekki leysa vandann. Ímyndarherferð í útlöndum hefur bókstaflega engin áhrif á þau undirliggjandi vandamál sem við þurfum að glíma við í okkar hagkerfi og þýðir ekkert að loka augunum fyrir, þýðir ekkert að kenna um misskilningi útlendinga eða óvild Dana. Og svo ég ljúki þá bara máli mínu á því að vitna aftur í fræga auglýsingu, ekki bjórauglýsingu að þessu sinni heldur auglýsinguna sem sagði: „Hæstv. forsætisráðherra, ekki gera ekki neitt.“