135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

efni og efnablöndur.

431. mál
[16:12]
Hlusta

Huld Aðalbjarnardóttir (F):

Herra forseti. Hér er rætt frumvarp til laga um efni og efnablöndur sem ég held að sé mjög mikilvægt að ræða vel og skoða vel. Það skiptir okkur miklu máli hvernig farið er með hættuleg efni og eins að tryggja að við sem meðhöndlum þessi efni vitum nákvæmlega hvað þau innihalda og hversu hættuleg þau eru. Þess vegna þarf skráningin á þeim að vera mjög ljós.

Markmiðið með frumvarpinu er meðal annars að tryggja meðferð á þeim efnum og að efnin og efnablöndurnar valdi ekki fólki, dýrum eða umhverfinu tjóni og það er náttúrlega eitthvað sem við verðum að standa vörð um. Eins er markmið með þessu frumvarpi frjálst flæði á efnavörum á markaði. Ég velti því fyrir mér og ég held að umhverfisnefnd verði að skoða vel hvort það fari alfarið saman, þetta frjálsa flæði á efnavörum á markaði og það að tryggja meðferð þessara efna. Við vitum að þekkingu þarf til að meðhöndla og flytja viss efni. Þess vegna velti ég þessu aðeins fyrir mér. Því er nefndinni hollt að skoða hvort þetta fari alfarið saman eða hvernig staða þessara mála er í frumvarpinu.

Ég vil ítreka mikilvægi þess að skrá og að þessi skráning sé alþjóðleg og að það sé á hreinu hvert sé innihald þeirra efna og efnablandna sem við meðhöndlum, þ.e. hversu hættuleg eða hættulaus þau eru. Einnig finnst mér mjög mikilvægt það ákvæði að skipta út hættulegri efnum fyrir hættuminni efni. Það er sennilega hérna inni reglugerðarákvæði um það hvernig eigi að standa að því. Ég hef rýnt svolítið í frumvarpið til að reyna að skilja það.

Við vitum líka að til eru ýmsar viðurkenndar alþjóðlegar merkingar um umhverfisvæn efni svo sem blásvanurinn og fleiri. En við vitum líka að oft er mjög dýrt fyrir fyrirtæki að fá þessar merkingar, viðurkenndar merkingar, á sína vöru. Þessar merkingar snúast um það hvernig vinnuferli fyrirtækisins er og hvort fyrirtækið stenst þær kröfur sem til þess eru gerðar. Það er nokkuð sem mætti skoða í þessum efnum líka.

Í lokin langar mig til þess að taka undir orð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur og segja að ég fagna því að þetta frumvarp komi hér fram og til umræðu vegna þess að það er okkur mjög mikilvægt hvernig þessum málum er háttað hér á landi. Ég hvet umhverfisnefnd til að fara vel yfir frumvarpið.