135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

Ísland sem alþjóðleg fjármálamiðstöð.

443. mál
[14:21]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Margir og kannski flestir í mínum flokki trúa á algildar, rökréttar, einfaldar og almennar reglur um umhverfi fyrirtækja, skatta og eftirlit, og annað umhverfi, eins og skilvirkt velferðarkerfi. Það hefur gefist vel og hefur stóraukið umsvif í íslensku atvinnulífi og alveg sérstaklega í fjármálageiranum, þannig að kannski erum við að stefna í þessa átt.

Því miður voru nokkrar hugmyndir þeirrar nefndar sem Sigurður Einarsson stýrði nokkuð sértækar, sem gengur þvert á þetta, en þegar er farið að vinna að almennu reglunum sem nefnd Sigurðar stakk upp á eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi. Í þá upptalningu vantar reyndar frumvarp um atvinnuréttindi útlendinga, en þar er sérstök áhersla lögð á að auðvelt verði að fá til landsins sérfræðinga á ýmsum sviðum, þar á meðal á fjármálasviði, til þess að setjast hér að og vinna þessi sérfræðistörf. Það er því verið að vinna heilmikið í þessa veru.