135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

fangelsi og höfuðstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

412. mál
[14:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég hlýt að túlka þetta svar sem svo að erindi Hafnarfjarðarbæjar sé hafnað, a.m.k. að svo stöddu fyrst hæstv. ráðherra talar um að skoða þurfi fleiri kosti. Lóðin í Hafnarfirði er sem sé föl en það á þá ekki að nýta hana, a.m.k. ekki að svo stöddu.

Ég heyrði það líka, virðulegi forseti, að hæstv. dómsmálaráðherra er að staðfesta það sem maður hefur skynjað að það eigi þá ekki að byggja uppi á Hólmsheiði og það eigi ekki að byggja stóra fangelsið sem búið var að undirbúa með talsvert mikilli vinnu heldur að vænlegra sé til árangurs, eins og hér er sagt, að splitta því upp og byggja aðeins meira upp á Litla-Hrauni en áður var gert ráð fyrir og byggja aðeins minna upp á höfuðborgarsvæðinu og það yrði þá væntanlega gæsluvarðhaldseining. Þá túlka ég það sem svo að svokölluð afeitrunardeild sem átti að rísa á höfuðborgarsvæðinu og sjúkradeild fyrir fanga sem eru með geðræn vandamál yrði byggð upp á Litla-Hrauni. Það er svo sem ekkert fráleitt að telja að það geti gengið upp. Það er brýnast að byggja upp gæsluvarðhaldið á höfuðborgarsvæðinu að mínu mati og að byggja upp nýjar höfuðstöðvar lögreglunnar. Í framhaldinu þarf auðvitað að klára uppbygginguna á Litla-Hrauni af því að staðan eins og hún er núna er okkur til skammar. Við erum með fólk í hegningarhúsinu á undanþágum hjá heilbrigðiseftirlitinu o.s.frv. Hæstv. ráðherra sagði að við hefðum beðið í hálfa öld í þessum málum. Í laginu segir að Þyrnirós hafi sofið í heila öld þannig að ég tel að bæði ríkisstjórn og þingið þurfi að taka sig verulega á í þessum málum. Fangelsismálin eins og þau eru í dag eru alls ekki í góðum farvegi.