135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

ókeypis námsbækur í framhaldsskólum.

367. mál
[15:32]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni áðan í fyrri atlögu hans, það er greinilega stutt síðan hann var í framhaldsskóla miðað við þær æfingar sem hann heldur uppi þegar hann kemur hingað í pontu.

Eftir hverju vinnum við í ríkisstjórninni og í stjórnarmeirihlutanum? Að sjálfsögðu því plaggi sem var samið á Þingvöllum sællar minningar og það er það sem við munum að sjálfsögðu ekki svíkja. Það er plaggið sem við vinnum eftir.

Ég vil minna á að það er þegar búið að samþykkja þingsályktun félagsmálaráðherra um aðgerðaáætlun barna og ungmenna. Og hvað stendur þar? Að sjálfsögðu að við ætlum að stuðla að því að námsgögn í framhaldsskólum verði ódýrari og hagfelldari fyrir framhaldsskólanema. Að þessu er unnið. Við erum að efla tækifæri unga fólksins til náms og við gerum því auðveldara að sækja í framhaldsskólana. Þess vegna hvet ég hv. þingmann til að veita framhaldsskólafrumvarpinu stuðning hér á vordögum.