135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

[15:56]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að gera svolitlar athugasemdir við ræðu síðasta ræðumanns að því leyti að mér finnst að hann eigi ekki að gera því skóna að málshefjandi vilji grafa undan iðnnámi í landinu eða Iðnskólanum með því að hafa þessar skoðanir á þeirri breytingu sem hér er verið að gera. Ég vil hins vegar ekki endilega taka undir þann málflutning sem hafður var uppi, mér fannst hann kannski ganga dálítið langt. Sannleikurinn er sá að þegar ég gegndi embætti iðnaðarráðherra fékk ég tækifæri til að setja mig dálítið inn í þau mál sem varða iðn- og starfsmenntun í landinu og komst á þá skoðun að þessi hluti menntunar væri vanræktur. Það er ekki gott því að sjálfsögðu er þarna um að ræða gríðarlega mikilvægar greinar sem þjóðfélagið þarf á að halda og þess vegna þarf að sjá til þess að tækifæri séu fyrir það unga fólk sem hyggst stunda þetta nám og gerir það. Að því leyti til trúi ég að þessi breyting geti leitt af sér góða hluti og ekki síst ef atvinnulífið kemur að málum og vonandi þá og væntanlega af krafti þannig að hægt sé að auka kraftinn í menntuninni og öllu því starfi sem hér um ræðir.

Eins og oft áður með þessa ágætu hæstv. ríkisstjórn virðist hún ekki hafa stundað mikið samráð í sambandi við þennan gjörning og það er ekki gott því að hún lagði upp með mikil fyrirheit um samráð og samstarf en síðan hefur allt annað komið í ljós þegar tímar hafa liðið fram.

Ég tel að ekki borgi sig að útiloka fyrir fram að þessi sameining geti leitt af sér góða hluti og vona sannarlega (Forseti hringir.) að svo verði vegna þess að þetta er svo mikilvægt má sem við erum að fjalla hér um.