135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

áhættumat vegna siglinga olíuflutningaskipa í íslenskri efnahagslögsögu.

358. mál
[18:04]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun hafa síðustu ár fylgst grannt með umræðum um auknar siglingar í Norðurhöfum og í kjölfar upplýsinga um aukna olíuflutninga frá Norðvestur-Rússlandi og hugsanlega stórflutninga þaðan til Norður-Ameríku var nefnd um innleiðingu laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, falið að skoða þessi mál að beiðni þáverandi umhverfisráðherra. Í greinargerð nefndarinnar frá því í febrúar 2006 var rætt um leiðir til að bregðast við þeirri þróun sem þá virtist vera fram undan. Ljóst er að þær siglingar sem þegar eru hafnar og hugsanleg þróun þeirra í framtíðinni munu breyta viðmiðum og áhættumati vegna siglinga við Ísland. Við þurfum að bæta eftirlit með umhverfi hafsins og efla viðbúnað við bráðamengun í hafinu umhverfis landið.

Í því skyni hefur Umhverfisstofnun m.a. tekið þátt í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi um eftirlit, viðbúnað og viðbrögð við bráðamengun hafs og stranda. Hér má nefna samráðs- og samræmingarstarf á vegum Evrópsku siglingaöryggisstofnunarinnar EMSA, svo sem um eftirlit með mengun sjávar með gervitunglum, samræmingu eftirlitsflugs og framkvæmd vegna bráðamengunaróhappa. Ísland er þó aðili að Kaupmannahafnarsamkomulaginu sem er samstarf Norðurlandanna um viðbrögð við mengunaróhöppum á sjó. Jafnframt hefur búnaður um borð í nýrri flugvél og nýju varðskipi Landhelgisgæslunnar verið hannaður í því ljósi að auka og bæta eftirlit innan íslenskrar mengunarlögsögu og bæta viðbrögð við bráðamengunaróhöppum á hafi úti.

Umhverfisstofnun hefur gert viðbragðsáætlanir sem eru stigskiptar eftir umfangi óhappa og í þeim er m.a. gert ráð fyrir að óhapp geti orðið er varðar stórt olíuflutningaskip. Slíkt óhapp mundi kalla á utanaðkomandi aðstoð, aðstoð annarra ríkja ef eitthvað slíkt gerðist en slíkar áætlanir þarf alltaf að endurskoða reglulega og hafa til stöðugrar skoðunar.

Um þessar mundir er verið að afla gagna um umfang og leiðir skipa frá Rússlandi vestur um til Ameríku. Jafnframt er horft til mismunandi leiða til að takmarka áhættu af siglingum umhverfis landið og vernda viðkvæm svæði. Nefnd samgönguráðherra um siglingaleiðir við Ísland er og að meta hvort ástæða sé til að stýra umferð skipa umhverfis landið frekar en nú er og þá hvaða leiðir henti best til þess.

Vert er að geta þess í því sambandi að samkvæmt nýlegum upplýsingum frá Siglingastofnun hefur þróunin í olíuflutningum frá Rússlandi til Vesturheims ekki orðið eins hröð og ráð var fyrir gert fyrir aðeins fáeinum árum þegar fyrirætlanir rússneskra stjórnvalda og fyrirtækja gáfu tilefni til að ætla að tvö fullfermd 100 þús. tonna olíuskip færu dag hvern um íslenska lögsögu. Árið 2006 fóru 36 olíuskip þessa leið fram hjá Íslandi og 43 á nýliðnu ári eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda. Meðalstærð skipanna er um 45 þús. tonn en hluti þeirra eru auðvitað 100 þús. tonna skip.

Þótt erfitt sé að spá um framtíðarþróunina í þessum efnum er það mat Siglingastofnunar að þessir stórflutningar muni ekki aukast í náinni framtíð. Það þýðir samt ekki að hægt sé að draga úr vinnu á þessu sviði, það er þvert á móti orðin staðreynd að stór olíuflutningaskip sigla hér fram hjá ströndum landsins og að óhöpp tengd þeim gætu haft mjög alvarleg áhrif á umhverfi, ímynd og efnahag Íslands. Ég vil láta skoða í samvinnu og samráði við samgönguráðuneyti hvernig hægt er að hafa áhrif á siglingaleiðirnar, það er vissulega ekki á mínu forræði en það er eitthvað sem þarf að beita sér fyrir. Varðandi hættumatið liggur nú aðeins fyrir ítarlegt mat fyrir suðvesturhluta landsins þar sem núverandi siglingar með olíu til landsins fara næst ströndu. Hinar alþjóðlegu siglingar með olíu fara hins vegar oftast fram næst norðvestur- og suðausturhluta landsins.

Að síðustu vil ég koma inn á spurningu hv. þingmanns vegna hugsanlegra áhrifa af olíuhreinsunarstöð hvar sem hún yrði reist, ef til þess kæmi, þá liggur það hreinlega ekki fyrir, það eru engar þær upplýsingar í umhverfisráðuneytinu sem gera okkur kleift að meta nákvæmlega hvaða áhrif slík starfsemi hefði. Þó er auðvitað alveg ljóst að sigling olíuskipa meðfram ströndum, hvort sem um væri að ræða aðföng til stöðvarinnar eða sigling með afurðir mundi auka áhættu og mengunaróhöpp við strendur landsins (Forseti hringir.) svo um munar en að sjálfsögðu yrði að taka það eins og allt annað inn í reikningsdæmið ef einhvern tíma verður af því að menn geri þær hugmyndir að veruleika.