135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

hagkvæmni og gæði í heilbrigðisþjónustu.

363. mál
[14:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Umræður um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu hafa verið afar misvísandi á síðustu árum en þó verður ekki fram hjá því litið að hún hefur einnig náð að skerpast og verið upplýstari en oft áður. En nú ætti varla nokkur maður að velkjast í vafa um að einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er allt annað en einkavæðing. Það eru helst vinstri grænir sem hafa þessi hugtök ekki á hreinu. Almenningur veit að einkarekstur í heilbrigðisþjónustu hefur tíðkast hér á landi um langt skeið. Hann er óaðskiljanlegur og mikilvægur hluti þjónustunnar. Ég tel að almenningur geri yfirleitt ekki greinarmun á því hvort þjónustan er innt af hendi af einkaaðilum eða ríkisstarfsmönnum þar sem kostnaður þeirra af þjónustunni er hinn sami.

Almenningur hefur á hinn bóginn góða reynslu af auknum einkarekstri innan menntakerfisins á síðustu árum og það er almennt viðurkennt að aukið samstarf ríkis og einkaaðila í rekstri menntastofnana hefur aukið gæði menntunar, metnað nemenda og kennara og boðið upp á meiri fjölbreytni og fleiri valkosti í menntunarmálum en áður hefur þekkst. Raddir um að þessi breyting hafi leitt til aukinnar óhagkvæmni í meðferð opinbers fjár eða að ráðist hafi verið að hugmyndum um jafnræði til menntunar, hafa þagnað.

Nágrannalönd okkar hafa á síðustu árum aukið verulega samstarf stjórnvalda og einkaaðila um rekstur einstakra þátta í heilbrigðisþjónustu með þeim formerkjum að stjórnvöld geri samninga við einkaaðila um að veita tiltekna þjónustu fyrir umsamið verð að uppfylltum skilyrðum um gæði og árangur þjónustunnar. Grundvallarviðmið um jafnræði, aðgengi að þjónustunni, yrðu í heiðri höfð eftir sem áður. Í stað þess að ríkisstarfsmenn veiti þjónustuna í umboði stjórnvalda eru það einkaaðilar sem halda utan um starfsemina. Íslensk stjórnvöld hafa tekið afar varfærin skref á síðustu árum í þessa átt, svo varfærin að legið hefur við pólitísku uppnámi í hvert sinn sem slíkir samningar hafa verið gerðir. Andstæðingar aukins einkarekstrar í heilbrigðisþjónustu hafa iðulega talað hana niður og málað hana svörtum litum. Þeir telja aukið samstarf við einkaaðila af hinu illa, að kostnaður aukist, bæði kostnaður ríkisins og þjónustuþega, að gæði þjónustunnar minnki og aðgengi takmarkist. Oft eru dregin fram dæmi erlendis frá því til sönnunar. Því hlýtur það að vera þessu úrtölufólki ákveðið íhugunarefni að umbúnaður og þjónusta á hjúkrunarheimilinu Sóltúni, sem er einkarekið, hefur verið notað sem fyrirmynd fyrir aðrar öldrunarstofnanir við breytingar og nýtingu slíkra stofnana. Að sama skapi er það eftirtektarvert að nýleg neytendakönnun innan heilsugæslunnar í Reykjavík sýndi að einkarekin heilsugæslustöð í Salahverfi fær bestu einkunn allra heilsugæslustöðva. Jafnframt staðfesti fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, það í fyrirspurnatíma fyrir nokkru síðan á síðasta kjörtímabili að heilsugæslustöðvar sem væru einkareknar væru hagkvæmasti kosturinn í stöðunni.

Nú hefur ný ríkisstjórn tekið af skarið og leggur áherslu á aukinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustu. Þannig segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að lögð verði aukin áhersla á mismunandi rekstrarform í heilbrigðisþjónustu og miklar væntingar eru um breytingar í þessa átt. Margir heilbrigðisstarfsmenn eru í startholunum með slík verkefni og í þessa veru (Forseti hringir.) hefur OECD einnig talað. Þess vegna eru þessar spurningar lagðar fram.