135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

kostnaðarþátttaka ríkis vegna fæðinga.

391. mál
[15:17]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birkir J. Jónsson hefur beint til mín fyrirspurn um kostnaðarþátttöku ríkisins vegna fæðinga. Í fyrsta lagi spyr þingmaður hvað megi áætla að margir foreldrar hafi þurft að sækja fæðingarþjónustu út fyrir sitt sveitarfélag árið 2007.

Því er til að svara að endanlegar tölur liggja ekki fyrir um fæðingarstaði árið 2007. En árið 2006 voru alls 3999 fæðingar á Íslandi. Af þessum fæðingum fóru 3038 fram á Landspítala, 308 á sjúkrahúsinu á Akureyri, 238 á sjúkrahúsinu á Akranesi, 150 á Suðurnesjum og 144 á Selfossi. Á öðrum stöðum voru fæðingar mun færri.

Af þessum 3999 fæðingum fæddi 3471 kona í heimabyggð. Því má segja að um 500 konur fæði utan þess svæðis þar sem þær eru skráðar til lögheimilis. Þar af fæða 85 konur með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu annars staðar á landinu. Gera má ráð fyrir að einhver hluti þeirra kvenna sem fæða utan sveitarfélags þar sem þær eiga lögheimili séu þar búsettar tímabundið. Einnig er vitað að sumar konur velja sér að eigin frumkvæði fæðingarstað utan eigin sveitarfélags þótt þar sé öll aðstaða til fæðinga.

Hv. þingmaður spyr hvort ég muni beita mér fyrir því að komið verði frekar til móts við kostnað foreldra sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu út fyrir sitt sveitarfélag.

Því er til að svara að um þennan kostnað er í gildi reglugerð nr. 871/2004, um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands. Sú reglugerð tekur einnig yfir þær ferðir sem hv. þingmaður spyr um. Að svo stöddu er ekki fyrirhuguð endurskoðun á þessari reglugerð.

Virðulegi forseti. Ég vona að þessar upplýsingar svari fyrirspurn hv. þingmanns.