135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

gjaldtaka tannlækna.

419. mál
[15:35]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Aðeins örstutt um þátttöku ríkisins í kostnaði vegna tannviðgerða og tannréttinga. Það er ótrúlegt hvað tannréttingar geta verið á misjöfnum forsendum. Annars vegar getur verið um það að ræða að laga þarf útlitið á tanngarðinum en einnig getur verið um skakkt bit að ræða sem háir þeim sem í hlut á verulega mikið. Slíkt getur t.d. haft áhrif á meltingu barna. Barnið getur haft efri góm frá móður og neðri góm frá föður og átt í virkilegum erfiðleikum. Kostnaðarþátttaka ríkisins er hins vegar hin sama í báðum tilvikum.

Það er því nauðsynlegt að kanna hvort kostnaðarhlutdeild ríkisins þyrfti ekki að vera með misjöfnum hætti eftir því hvort um er að ræða veikindi, ef svo má segja, eða hvort einungis er verið að lappa upp á útlitið.