135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

störf þingsins.

[10:47]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að tjá mig um heldur aumt framlag hv. þm. Marðar Árnasonar til þessarar umræðu, þar sem hann reynir að gera lítið úr óskum okkar til að taka hér til efnislegrar umræðu einkavæðingu heillar deildar á Landspítalanum. Ósk um það hefur legið fyrir þinginu frá 27. febrúar síðastliðnum og það er fyrst og fremst við hæstv. heilbrigðisráðherra að sakast fyrir að sú umræða skuli ekki komin á dagskrá.

Til þess að leiðrétta hv. þingmann formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Arnbjörgu Sveinsdóttur, þá er það alveg rétt sem hún segir að á fundi þingflokksformanna í gær var um það rætt að hér færi fram umræða af okkar hálfu við hæstv. fjármálaráðherra um manneklu á dvalarheimilum fyrir aldraða. Þegar í ljós kom að sú umræða gat ekki orðið þá ráðfærði ég mig við stjórn þingsins sem gaf grænt ljós á að ég leitaði eftir því við hæstv. heilbrigðisráðherra að sú umræða sem ég geri hér að umtalsefni færi fram. Hann neitaði því, sem mér fannst harla undarlegt í ljósi þess að hann er hér til staðar í dag. Þetta er aðeins til skýringar á þessu máli.

Í efnislega umræðu ætla ég ekki að fara hvað þetta snertir en fróðlegt verður að heyra hvað raunverulega vakir fyrir Sjálfstæðisflokknum í þessu efni. (Gripið fram í.) Á að láta meira fjárframlag renna til Landakots eða er verið að spara? Er hugsanlega verið að spara á kostnað starfsfólksins? Getur það verið?

Þetta er sú umræða sem við viljum taka við framkvæmdarvaldið. Einmitt þetta viljum við ræða. Ég vona að starfsmenn á Landakoti, á Landspítalanum, hlusti á þessa umræðu og þær kveðjur sem Sjálfstæðisflokkurinn sendir eina ferðina enn inn á spítalagangana.