135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[11:41]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef hv. þingmaður hefur hlustað á það sem ég sagði um forgangsröðun fjármuna, ráðstöfun á skattfé landsmanna, þá vil ég láta ráðstafa skattfé til öryrkja og eldri borgara í ríkari mæli en gert er. Ég harma sérstaklega að ríkisstjórnin ráðist í stórfelld útgjöld, milljarða útgjöld, í tengslum við hervæðingu landsins, heræfingar í sumar. Ég vék að öðrum kostnaði einnig í því samhengi.

Varðandi milljóna- og milljarðamæringa Sjálfstæðisflokksins þá á að sjálfsögðu að taka á þeim í skattkerfinu. Eins og við höfum fengið staðfest í fréttum í gær og í skýrslum sem reiddar hafa verið fram þá hefur það gerst í fjármálaráðherratíð Sjálfstæðisflokksins að sköttum hefur verið létt af tekjuhæsta fólkinu en álögum hlaðið á þá sem minnstar hafa tekjurnar. Þeir neituðu þessu hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ríkisstjórn, að þetta væri raunin, en nú er að koma í ljós að gagnrýni stjórnarandstöðunnar átti við rök að styðjast.

Já. Ég tel að það eigi að innleiða frítekjumark á greiðslur úr lífeyrissjóðum. Ég tel að það sé rétt að gera það og tek þar með undir áherslur verkalýðshreyfingarinnar og Landssambands eldri borgara um það efni. Það er fróðlegt að heyra að Sjálfstæðisflokkurinn skuli leggjast gegn því.

Varðandi tekjutengingu maka, fyndist hv. þingmanni eðlilegt að koma á slíkri tengingu hjá öðrum hópi sem fær peninga úr almannatryggingakerfinu? Ég er að tala um atvinnulaust fólk. Ef einstaklingur er atvinnulaus og vel giftur eða gift, eins og kallað er, á þá að rýra tekjurnar í samræmi við það úr almannatryggingunum? (Forseti hringir.) Hvers vegna á eitthvað annað að gilda um öryrkja? (Forseti hringir.) Hvers vegna er það ekki sjálfstæður einstaklingur? Er verið að lýsa stefnu Sjálfstæðisflokksins? (Forseti hringir.)