135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[12:36]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hef áður lýst því yfir að ég teldi það frumvarp sem hér liggur fyrir vera mjög til bóta og bæta hag þeirra sem ætlað er að bæta sérstaklega, þ.e. ellilífeyrisþega. Þar af leiðandi styð ég frumvarpið og get í sjálfu sér tekið undir þau sjónarmið og rök sem hv. þm. Ellert B. Schram flutti í ræðustól áðan.

Varðandi nefndarálit sem liggur fyrir frá félags- og tryggingamálanefnd og undirritað er af nefndarmönnum sem aðeins einn þeirra gerir fyrirvara við þá hefur það komið mér nokkuð á óvart að þeir sem helst hafa kvatt sér hljóðs í umræðunni eru þeir sem hafa skipað nefndina og hafa gert grein fyrir málinu og hafa því getað haft með það að gera í nefndinni.

Í sjálfu sér er ekki mikill ágreiningur hvað þetta mál varðar og því óþarfi að hafa langt mál um það. Við frjálslynd hefðum viljað ganga lengra en gert er varðandi frítekjumark. Í sjálfu sér veldur það ekki vandamálum varðandi greiðslur úr ríkissjóði þó að um frítekjumark sé að ræða, miklu frekar að það komi þá tekjur á móti vegna þess að annars myndast þessar tekjur ekki, þ.e. ef frítekjumarkið er ekki til staðar. Hins vegar er spurning um það sem mér fannst hv. þm. Pétur Blöndal svona ýja að og við höfum aðeins skipst á skoðunum um í vetur, með hvaða hætti og hvernig við högum og skipuleggjum velferðarkerfið þannig að við séum ekki með margs konar aðferðir og leiðir til þess að koma að þeirri velferð sem við teljum að fólk eigi rétt á.

Mörgum finnst það ef til vill ankannalegt að úr hópi auðugustu manna þjóðarinnar sækir einn ellilífeyrinn sinn á meðan annar er í fæðingarorlofi og sækir fæðingarstyrkinn sinn, án þess ég nefni nokkur nöfn. Þannig er þetta að þeir milljarðamæringar sem þar er um að ræðir njóta framfærslu eða ákveðins framfærslueyris frá skattborgurunum eða þjóðfélaginu.

Þetta er hins vegar það kerfi sem við búum við. Spurningin er því hvort við viljum hafa þetta þannig eða hvort við viljum gera einhverjar breytingar. Með því að búa til ýmiss konar útfærslu eins og hér er verið að gera með margvíslegum hætti þá erum við í sjálfu sér að gera vissar lagfæringar á kerfi sem hefur ekki verið nægjanlega gott, hefur ekki tryggt nægjanlega vel velferð eldri borgara í landinu. Þess vegna hljótum við, og í samræmi við það sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson vakti athygli á, að fagna þeim lagfæringum sem hér eru gerðar.

Við erum samt sem áður með meingallað velferðarkerfi og ég tel að það beri brýna nauðsyn til og vil beina því til hæstv. félagsmálaráðherra að athuga hvernig mætti gera velferðarkerfið í landinu skilvirkara. Ég hef ekki séð aðra leið betri en þá að menn fari leið svokallaðra neikvæðra tekjuskatta. Það séu ákveðnar viðmiðunartekjur sem eru miðaðar við það að allir þjóðfélagsþegnar geti búið við mannsæmandi lífskjör og þeir sem eru undir því tekjumarki fái ákveðinn velferðarstyrk eða bætur frá hinu opinbera en aðrir ekki. Á þann hátt yrði tekið fyrir það að þeir allra auðugustu í samfélaginu fái sérstakan velferðarstyrk frá þessu sama samfélagi sem þeir í sjálfu sér hafa enga þörf á og greiða hlutfallslega miklu minni skatta en þeir sem eru að berjast í sveita síns andlits fyrir því að hafa tekjur fyrir sjálfa sig og fjölskyldur sínar.

Svo er nú hinu yndislega skattkerfi ríkisstjórnarinnar fyrirkomið eftir lagfæringar hennar á því, að skattar á fyrirtækjum og lögaðilum hafa lækkað og samkvæmt nýrri skýrslu sem kom frá OECD og birt var í gær þá hefur skattlagning á barnafjölskyldur verið að aukast hlutfallslega og hvað mest hér af öllum OECD-ríkjunum sem er náttúrlega ekkert til sóma og ekki til að auka velferð okkar.

En þetta var kannski útúrdúr. Ég styð það frumvarp sem hér er um að ræða. Mér finnst ástæða til þess að það sé reynt að greiða fyrir því að það verði afgreitt sem allra fyrst frá þinginu sem lög. Hér er verið að taka á mikilvægri réttarbót fyrir aldraða í landinu og eins og ég sagði þá vildum við frjálslynd ganga lengra.

Það er rétt sem Birkir Jón Jónsson sagði, að allir stjórnmálaflokkar sem buðu fram í síðustu kosningum lögðu sérstaklega áherslu á að bæta kjör aldraðra vegna þess að það var virkileg þörf á að gera það. Í samræmi við það styður Frjálslyndi flokkurinn frumvarpið þó að við hefðum viljað fara að hluta til aðrar leiðir, en það er annað mál. Við styðjum það frumvarp sem hér liggur fyrir.