135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[13:34]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju með það frumvarp sem við erum að samþykkja nú við 2. umr. sem hefur í för með sér kjarabætur handa eldri borgurum og öryrkjum rétt eins og allir stjórnmálaflokkar lofuðu í aðdraganda síðustu kosninga. Auðvitað byggir þetta frumvarp á því mikla svigrúmi sem síðasta ríkisstjórn veitti í ríkisfjármálum sem skilaði af sér skuldlausum ríkissjóði (Gripið fram í.) og það er þess vegna sem við getum hér, allir stjórnmálaflokkar á Alþingi, bætt kjör aldraðra og öryrkja. (Gripið fram í: Framsókn?)

Hins vegar hefur Framsóknarflokkurinn lýst yfir andstöðu sinni við að ekki skuli hafa verið komið til móts við þá aldraða sem lakast eru settir í þessum hópi. Því miður er ekki tekið á því í þessu frumvarpi. (Gripið fram í.) Það er úrlausnarefni sem bíður okkar í þessum efnum sem og sá tvískinnungur að skipta öldruðum í tvo hópa, annars vegar 67–70 ára sem lenda í skerðingum ef þeir vinna og 70 ára og eldri sem geta unnið án þess að verða fyrir (Forseti hringir.) skerðingum. Að sjálfsögðu þarf að ganga algjörlega hreint til verks og setja aldraða undir sama hattinn í þessum efnum og að því (Forseti hringir.) verður stefnt.