135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:42]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það eru örfá atriði sem ég vildi staldra við í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem var ágæt og málefnaleg á margan hátt. Sérstaklega finnst mér ástæða til að fagna þeim ummælum hans eða þeim tilvísunum hans í það að ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa auðvitað lagt mikið af mörkum til þess að gera skattumhverfið hér samkeppnishæfara en áður var og þó að það gætti nokkurra efasemda í máli hv. þingmanns um það atriði dró hann það engu að síður fram og fyrir það ber að þakka.

Ég er þeirrar skoðunar að afar jákvæð skref hafi verið stigin í þessum efnum með því að gera íslenskt skattumhverfi hagstæðara fyrir atvinnulífið vegna þess að skattaleg samkeppni milli landa er staðreynd. Hún er staðreynd eins og samkeppni milli landa á mörgum öðrum sviðum. Ég held að við höfum gert margt ansi vel. Við höfum lágt skatthlutfall í alþjóðlegu samhengi á fyrirtækjarekstur. Við höfum tiltölulega hagstæðan fjármagnstekjuskatt og skattumhverfi okkar er á margan hátt einfaldara en gerist í mörgum löndum í kringum okkur. Hins vegar segja þessir þættir ekki alla söguna varðandi raunskattlagningu fyrirtækja vegna þess að í mörgum tilvikum hafa nágrannalöndin ýmsar sérreglur, undanþágureglur og frádráttarliði sem við höfum ekki þannig að raunskattlagningin er kannski ekki eins hagstæð í samanburðinum og prósentan gefur til kynna.

Ég held hins vegar að sú breyting sem felst í því frumvarpi sem við ræðum hér sé skref í þá átt að gera reglurnar hérna aðgengilegri fyrir atvinnulífið og dragi verulega úr hættunni á því að fyrirtæki flytji starfsemi eða höfuðstöðvar úr landi af skattalegum ástæðum og sé þess vegna (Forseti hringir.) afar jákvæð fyrir íslenskt atvinnulíf.