135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:21]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þingmaður tala eins og hér séu náttúrulögmál sem séu handan mannlegs áhrifavalds. Auðvitað er það ekki svo. Þetta eru allt saman ákvarðanir stjórnmálamanna eða embættismanna.

Það er auðvitað ekkert annað en aumingjaskapur og okkur öllum til skammar sem höfum borið einhverja ábyrgð á stjórnmálum landsins undanfarin ár og áratugi hversu eftirgæfir menn hafa verið í þessari miðsækniáráttu í uppbyggingu opinberrar þjónustu og stjórnsýslu. Það er bara þannig. Það er ekkert eitthvað óumbreytanlegt fyrirbæri sem ræðst á grundvelli einhverra náttúrulögmála. Það er bara ekki þannig. Þetta eru mannasetningar allt saman.

Ég fullyrði hins vegar að lausnin er ekki fólgin í því sem hv. þingmaður talar hér um, að einkavæða alla hluti. Ef þeir stjórnmálamenn sem höfðu, og hafa enn, yfir opinberum fyrirtækjum eins og Landsvirkjun, Orkubúi Vestfjarða og Rarik að segja, hefðu haft pólitískan kjark og hug til þess, getað skipað þessum málum öðruvísi. Það hef ég marglagt til á undanförnum árum. Það var ein af ástæðum þess að við lögðumst gegn því að Vestfirðingar yrðu neyddir til þess að láta frá sér Orkubú Vestfjarða vegna þess að með því fór auðvitað ákveðið sjálfstæði.

Ég hef spurt á móti. Er hið opinbera tilbúið til að beita eign sinni og áhrifavaldi innan orkugeirans til þess að búa til svæðisfélög? Skipta upp starfsemi Landsvirkjunar, Rariks og Orkubús Vestfjarða og búa til öflug svæðisorkufyrirtæki, orkubú, með höfuðstöðvar í landshlutanum?

Nú rétt fyrir jólin ræddi ég þetta við hæstv. iðnaðarráðherra. Hv. þm. Pétur Blöndal getur tekið þátt í slíku með mér og lagt mér lið í því ef hann vill. Til þess höfum við vald, til þess höfum við stöðu. Hvað verður um eignarhald þessara fyrirtækja síðar meir, það vitum við auðvitað ekki. Vonandi tekst að bjarga því og halda því áfram í samfélagslegri eigu en um það erum við, ég og hv. þingmaður, örugglega ósammála. En það breytir ekki því að við getum gert það sem við getum gert á meðan hlutirnir eru þannig (Forseti hringir.) að við höfum yfir opinberum rekstri að segja.