135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

Vaðlaheiðargöng.

369. mál
[15:39]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það var kannski ekki flókið að svara spurningum mínum þar sem mikill hluti svaranna liggur nú þegar fyrir eins og ég benti á hér áðan.

Reyndar svaraði hæstv. ráðherra þriðju spurningunni ekki fullkomlega. Ég spurði hvort hæstv. ráðherra hefði barist fyrir því líkt og hann lofaði í aðdraganda síðustu kosninga að þessi framkvæmd yrði gjaldfrjáls. Þótt ég og hæstv. ráðherra fögnum því báðir að það skuli vera búið að bjóða út þá framkvæmd þá hlaupa menn ekkert frá því sem þeir skrifuðu í aðdraganda síðustu kosninga. Menn sögðu að það væri ekkert mál að bjóða þessa framkvæmd út strax og það væri heldur ekkert mál að hafa hana gjaldfrjálsa. Því var einfaldlega lofað á sínum tíma.

Þegar hæstv. ráðherra talar um áhugaleysi mitt gagnvart því að verja þessa framkvæmd þá vil ég benda á að við áttum í mjög góðu samstarfi við Greiða leið á sínum tíma, sem var einkafyrirtæki, að undirbúningi þessarar framkvæmdar. Það var mikill áhugi hjá okkur framsóknarmönnum á því að koma Vaðlaheiðargöngunum í gegn á sínum tíma.

Ég vil benda á að þegar samgönguáætlun var lögð fram af hálfu ráðherra Sjálfstæðisflokksins þá voru Vaðlaheiðargöng ekki inni á fjögurra ára áætlun. Það var að kröfu okkar framsóknarmanna að Vaðlaheiðargöng voru sett inn á fjögurra ára áætlun. Við framsóknarmenn skömmumst okkar svo sannarlega ekkert fyrir að hafa staðið okkur vel í þessum málum. Við vorum með raunhæf markmið í aðdraganda síðustu kosninga en ekki einhver gylliboð sem ég varpa hér ljósi á í þessari umræðu.

Þegar hæstv. ráðherra talar um ef Hvalfjarðargöngin yrðu gerð gjaldfrjáls mundi það nú kosta sitt. Mér fannst hæstv. ráðherra tala í hálfneikvæðum tón um það.

Ég vil minna hæstv. ráðherra á að það var aðalstefnumál Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi að Hvalfjarðargöngin yrðu gjaldfrjáls. Það (Forseti hringir.) væri því ágætt að fá sjónarmið hæstv. ráðherra um (Forseti hringir.) hvort hann sé sammála félögum sínum í Norðvesturkjördæmi um að Hvalfjarðargöngin eigi að verða gjaldfrjáls.